Fer svolítið rólega af stað

Deila:

Hinn nýi Óli á Stað GK hefur róið sleitulítið síðan Stakkavík fékk bátinn afhentan. Óðinn Arnberg Kristinsson, skipstjóri, segir að aflinn sé að meðaltali um sex tonn í róðri og mætti vera meiri, en róðrarnir voru orðnir sjö í gær.

„Við höfum verið hérna fyrir norðan og landað á Siglufirði. Fari aflinn að glæðast verðum við sennilega áfram hér fyrir norðan, en annars er góður afli fyrir austan og þangað gætum við farið. Það er kominn tími á að fylla bátinn,“ segir Óðinn. „Þetta fer svolítið rólega af stað. Vantar svolítinn kraft í þetta.“

Óðinn Arnberg landar aflanum úr fyrsta túrnum.

Óðinn Arnberg landar aflanum úr fyrsta túrnum.

Báturinn var afhentur Stakkavík á fimmtudaginn 18. maí og fór í fyrsta róðurinn laugardaginn þar á eftir og landaði 7,7 tonnum daginn eftir. Síðan hefur verið róið daglega en aflinn yfirleitt heldur minni. Afhendingu bátsins seinkaði verulega en hann átti að vera tilbúinn í nóvember á síðasta ári.

Óli á Stað er einn af stóru bátunum í krókakerfinu, tæp 30 tonn, með beitningarvél um borð, og segir Óðinn að báturinn sé mjög góður en þó þurfi að þyngja hann að framan til að hann fari betur í sjó. Brúin er hærri á þessum bát en hinum Óla Á stað, sem nú er Sandfell SU og lestin er hærri. Hann er svipaður og Gullhólmi SH, nema að hann er 70 sentímetrum lengri og gæti borið 26 tonn, en á það á eftir að reyna. Þá er aðstaða til að gera að aflanum um borð.

Deila: