Enn eitt árið í niðurskurði þorskaflans

Deila:

Nýtt fiskveiðiár er hafið með ráðleggingu um hámarksveiði í þorski upp á 208.846 tonn og verður leyfilegur afli í samræmi við það. Þetta verður minnsti þorskkvóti frá fiskveiðiárinu 2013-2014. Leyfilegur þorskafli Íslendinga hefur sveiflast mikið frá árinu 1981 þegar aflinn varð 461.000 tonn og hefur aldrei verið meiri. Svartar skýrslur frá Hafrannsóknastofnun sýndu fram á að mikil ofveiði hefði átt sér stað árin á undan og mikill niðurskurður í aflaheimildum væri nauðsynlegur. Illa hafði gengið að stjórna fiskveiðum og ljóst að tímar nærri óheftra veiða væru liðnir. Eina leiðin út úr ógöngunum var kvótakerfi, þar sem ákveðinni aflahlutdeild í helstu fisktegundum var úthlutað á hvert skip og útgerðinni ætlað að sjá um úreldingu og fækkun skipa.

40% aflaskerðing í upphafi kvótakerfisins

Fyrsta árið í kvótakerfi ráðlagði Hafrannsóknastofnun 200.000 tonna hámarksveiði. Úthlutað var 242.000 tonnum og varð skerðingin í heild og á hvert skip 40% frá veiðireynslu áranna á undan. Reyndin varð að alls veiddust 281.500 tonn árið 1984. Það varð svo reynslan næstu árin að alltaf var aflinn talsvert meiri en ráðgjöf fiskifræðinga gerði ráð fyrir og sama má segja um úthlutaðan kvóta, eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Aðal ástæðurnar voru að flotinn var alltof stór.

682.000 tonn umfram ráðleggingar

Þó sumir telji að farið hafi verið að tillögum fiskifræðinga og ákvörðunum stjórnvalda um leyfilegan heildarafla af þorski frá tilkomu kvótakerfisins, er það alrangt. Munurinn á tillögum fiskifræðinga frá 1984 til 1991 og ákvörðun stjórnvalda um heildarafla er samtals 265.000 tonn á þessu tímabili. En heildarafli varð miklu meiri en ætlað var. Hann fór 417.000 tonn fram yfir ákvörðun stjórnvalda og 682.000 tonn umfram ráðleggingar fiskifræðinga. Aflinn var næstu árin 300.000 til 400.000 tonn. Pólitíkin réði miklu og stjórnkerfið hafði takmarkaða getu til að hafa stjórn á veiðunum. Og skipin voru enn alltof mörg.

Sóttu í Smuguna í Barentshafi

Það var ekki fyrr en eftir 1990 sem fór að verða betra samræmi í ráðgjöf, ákvörðun og endanlegum afla. Þá hafði sóknarmarkið verið fellt niður að mestu og framsalið gefið frjálst. Engu að síður var veitt umfram ráðleggingar vísindamanna allt til ársins 2009. Við ramman reip var að draga í þessum efnum, meðal annars vegna margvíslegs þrýstings úr röðum stjórnmálamanna og víða úr þjóðfélaginu. Talið var að það jafngilti kreppu á Íslandi færi þorskaflinn niður fyrir 300.000 tonn, hvað þá enn neðar. Allan tíunda áratug síðustu aldar voru miklir erfiðleikar í íslenskum sjávarútvegi. Kvótinn var lítill. Árið 1993 var mjög erfitt í þorskveiðunum og þá fóru skipin í tugatali á þorskveiðar í Smugunni í Barentshafi. Sjávarútvegsráðherra fór þá þess á leit við Hafrannsóknastofnun að farið yrði í vinnu til að veita langtíma ráðgjöf um nýtingu þorskstofnsins. Þá var fyrsta aflareglunefndin skipuð. Niðurstaðan var að ekki skyldi tekið meira en 25% úr veiðistofninum á hverju ári. Engu að síður voru heimilaðar meiri veiðar en fiskifræðingar lögðu til og tekið hærra hlutfall úr stofninum en þeir töldu ráðlegt. Aflinn þennan áratug rokkaði í kringum 200.000 tonnin.

20% veiðiregla

Fiskveiðiárið 2007/2008 var tekin upp 20% regla að ráðleggingum vísindamanna. Ekki skyldi tekið meira en 20% árlega úr veiðistofninum. Stjórnvöld ákváðu þá að fylgja ráðleggingum vísindamanna í hvívetna. En það gekk þó ekki alveg eftir. Fiskveiðiárið 2007/2008 lögðu vísindamenn til 130.000 tonna hámarksafla í kjölfar ofmats á stofninum árin á undan. Úthlutað aflamark var það sama en aflinn varð samt 141.000 tonn. Árið eftir var tillaga fiskfræðinga 124.000 tonn samkvæmt 20% aflareglu. Útgefinn kvóti var engu að síður 160.000 tonn og heildarafli 169.000 tonn. Þó stjórnvöld hafi haldið sig við ráðleggingar fiskifræðinga varð aflann alltaf meiri, nema fiskveiðiárið 2016/2017. Þá náðist ekki að veiða það sem ráðlagt var, 244.00 tonn. Munaði þar 7.000 tonnum. Síðan þá hefur verið samræmi í ráðleggingum, útgefnum kvóta og afla. Engu að síður hafa fiskifræðingar lagt til niðurskurð síðustu fiskveiðiárin, grundvallað á ofmati stofnunarinnar á stærð þorskstofnsins. Fiskveiðiárið 2019/2020 var ráðlagður hámarksafli 272.411 tonn samkvæmt 20% aflareglunni. Ráðlegging fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 var 256.593 tonn, sem var samdráttur um 6%. Fiskveiðiárið 2021/2022 var samdrátturinn í þorskráðgjöfinni hlutfallslega enn meiri, eða 13%, þegar ráðlagt var að veiða 256.593 tonn af þorski. Áhrif þessa mátti til dæmis sjá í sumar þegar flest sjávarútvegsfyrirtæki lengdu sumarstopp í útgerð og vinnslu.

Og sem fyrr segir er hafið nýtt fiskveiðiár sem þorskkvótinn dregst enn saman, nú um 6% frá síðasta fiskveiðiári og verður 208.846 tonn. Samdráttur þorskkvótans á þessu fiskveiðiári miðað við fiskveiðiárið 2019/2020 þegar síðast var aukið við þorskkvótann er 23,4%.
Fréttaskýring þessi birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri, sem Ritform gefur út og dreifir til fyrirtækja um allt land. Blaðið má lesa á slóðinni https://ritform.is/

 

Deila: