Ágætur djúpkarfaafli Örfiriseyjar RE

Deila:

,,Við höfum svo til eingöngu haldið okkur á djúpslóð allan túrinn og leitin hefur fyrst og fremst beinst að djúpkarfa. Það er góð spurn eftir honum um þessar mundir. Veiðin hefur gengið ágætlega og við stefnum að því að koma til hafnar í Reykjavík nk. mánudag,“ sagði Ævar Jóhannesson, skipstjóri á frystitogaranum Örfirisey RE, er rætt var við hann síðdegis í gær á heimasíðu HB Granda.

Örfirisey fór í veiðiferðina fljótlega eftir að sjómannaverkfallinu lauk fyrir mánuði síðan og hefur skipið komið einu sinni inn til millilöndunar á þeim tíma. Er rætt var við Ævar var aflinn upp úr sjó í veiðiferðinni orðinn um 760 tonn og hann sagðist því reikna með því að heildartalan yrði ríflega 800 tonn þegar siglt yrði til hafnar.

,,Við byrjuðum túrinn á Eldeyjarbankanum fljótlega eftir að loðnan var gengin þar yfir og þar fengum við stóran og góðan þorsk. Í framhaldinu færðum við okkur út í Skerjadjúpið þar sem leitað var að djúpkarfa. Aflabrögðin voru góð en auk djúpkarfa var aflinn gulllax og dálítið af ufsa,“ segir Ævar en er rætt var við hann var togarinn kominn á svæðið djúpt vestur af Látrabjargi.

,,Það brældi syðra og við færðum okkur því hingað norður eftir. Sem fyrr eru það djúpkarfi og gulllax, sem við erum á höttunum eftir, en einnig grálúða. Það hefði reyndar mátt ganga betur á grálúðuveiðunum en það er eins og að göngurnar eða ætið vanti. Hitaskil eru hér úti um allt og við erum búnir að draga eftir þeim. Við áttum von á meiru, t.d. út af Hampiðjutorginu, en það gekk ekki eftir. Svipaða sögu er að segja af grálúðuveiðum víðar. Höfrungur III AK byrjaði t.d. í Seyðisfjarðardjúpinu eftir verkfall og fékk þá góðan grálúðuafla í fyrstu holunum. Síðan tregaðist aflinn og mér skilst á skipstjórum annarra skipa að það sé lítið af grálúðu að hafa fyrir austan um þessar mundir. Svo er það norðurkanturinn en þar hefur lengst af verið ótíð.“

Sjálfur segist Ævar ekki geta kvartað undan veðráttunni.

,,Við höfum reyndar verið mest á suðurmiðum en það hefur ekki einn einasti dagur fallið úr hjá okkur á veiðum í þessum túr. Það er ekki oft sem það gerist í febrúar og mars,“ segir Ævar Jóhannesson.
 

 

 

Deila: