FleXicut tryggir Odda ný tækifæri

Deila:

„FleXicut tryggir Odda ný tækifæri og gefur fyrirtækinu forskot í harðri samkeppni á erlendum mörkuðum. Fjárfesting fiskvinnslunnar Odda hf. í FleXicut kerfinu frá Marel skilar ekki bara gæðameiri afurðum heldur eykur einnig skilvirkni og tækifæri fyrirtækisins til frekari framþróunar. FleXicut greinir og sker burt beingarð úr hvítfisk flökum með ótrúlegri nákvæmni og hlutar þau svo niður í bita eftir ákveðnum skurðarmynstrum,“ segir í frétt frá Marel.

Kaup á nýrri FleXicut vinnslulínu marka hápunkt í farsælu samstarfi fiskvinnslunnar Odda hf. á Patreksfirði og Marel. Oddi hefur notað búnað frá Marel allt frá því fyrstu vogirnar komu á markað í byrjun níunda áratugarins . Fiskvinnslan státar nú af heildarlausn frá Marel; frá vogum, flokkurum og skurðarvélum til Innova hugbúnaðar sem vaktar framleiðsluna á öllum stigum.

„Búnaðurinn frá Marel nær yfir alla þætti vinnslunnar og eykur þannig skilvirkni,” segir Skjöldur Pálmason, framkvæmdarstjóri Odda. „Samstarf okkar og Marel hefur ávallt fært Odda betri afkomu.”

Aðstæður á fjármálamarkaði hafa verið óhagstæðar fyrir fyrirtæki í fiskvinnslu, þar sem hátt gengi krónunnar hefur reynst erfitt í harðri samkeppni. „Það besta sem við getum gert í þessum aðstæðum er að snúa vörn í sókn og gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að auka framleiðsluverðmæti. Við höfum fylgst með FleXicut síðan vélin var fyrst kynnt á Sjávarútvegssýningunni í Brussel árið 2015. Vélin var þá enn í þróun og spurningin var ekki hvort við myndum fjárfesta í FleXicut, heldur hvenær,” útskýrir Skjöldur.

Á Whitefish ShowHow, árlegri sýningu í sýningarhúsnæði Marel í Kaupmannahöfn í nóvember 2016, var gengið frá samningunum. Á sýningunni kom nákvæmni vélarinnar bersýnilega fram. „Hvert einasta stykki sem úr vélinni kemur er jafnstórt hinu næsta. Þetta var rétti staðurinn til þess að ganga frá kaupsamningnum,” segir Skjöldur Pálmason. Fulltrúar Odda og sérfræðingar Marel höfðu þá farið í gegnum mikilvæga hugmyndavinnu að hönnun FleXicut kerfisins með aukna hráefnisnýtingu og bætt gæði afurðarinnar að leiðarljósi.

FleXicut kerfið sem sett hefur verið upp hjá Odda samanstendur af FleXicut skurðarvél og FleXisort afurðadreifingarkerfi. FleXicut greinir og sker burt beingarð, þunnildi og sporð með mikilli nákvæmni og hlutar svo flökin niður í bita samkvæmt óskum viðskiptavinar. FleXisort er sérhannað til þess að taka við afurðum frá FleXicut og dreifa á mismunandi afurðarlínur með nýrri vipputækni sem stuðlar að bættri hráefnismeðhöndlun.

Með harðnandi samkeppni er mikilvægt að huga að hagkvæmni og sjálfvirk skurðartækni sem lágmarkar hráefnissóun er stórt skref í þá átt. „Við teljum þetta vera mestu framfarir í bolfiskvinnslu í áratugi. Það er algjör bylting, að skera beingarðinn sjálfvirkt burt með svo mikilli nákvæmni og hraða, en meðhöndla afurðina jafnframt varfærnislega,” útskýrir Skjöldur. „Við væntum þess að FleXicut verði til þess að við getum bæði náð hámarksvirði úr hráefninu og brugðist betur við kröfum markaðarins. Sú nákvæmni sem hægt er að ná við vinnslu hráefnisins með FleXicut verður til þess að kaupendur á markaði munu fara að ætlast til jafn mikillar nákvæmni.”

„Búnaðurinn gerir okkur kleift að bjóða upp á fleiri vörulínur fyrir viðskiptavini okkar. Við náum forskoti í samkeppni við aðra framleiðendur og getum boðið upp á fyrsta flokks vöru; hvort sem um er að ræða ferska hnakka eða flök,” bætir Skjöldur við.

Í ár fagnar Oddi hf. 50 ára afmæli sínu en fyrirtækið hóf starfsemi sína árið 1967. „Nú er því rétti tíminn til þess að fjárfesta í framtíðinni,” segir Skjöldur. „Síðastliðið ár höfum við gert miklar fjárfestingar og segja má að uppsetning FleXicut kerfisins sé hápunkturinn á ferlinum og fullkomin leið til þess að halda upp á hálfrar aldar afmælið!”

Myndin: Skjöldur Pálmason, framkvæmdastjóri Odda hf., Valdimar Sigurðsson, svæðissölustjóri Marel og Sigurður Viggósson, stjórnarformaður Odda hf., takast í hendur til að staðfesta samning um uppsetningu FleXicut.

 

Deila: