Grunur um ISA-veiru í Berufirði

Deila:

Grunur hefur vaknað um tilvist ISA-veirunnar í laxeldisstöð við Hamraborg í Berufirði. Í síðustu sýnaseríu sem tekin var á sjókvíaeldissvæðinu í síðustu viku reyndist eitt sýni svara með jákvæðum hætti og verður þetta tiltekna sýni nú sent í raðgreiningu til staðfestingar. Búist er við að niðurstöður úr þeirri greiningu liggi fyrir á morgun. Á föstudag voru tekin enn fleiri sýni úr öllum kvíum á staðsetningunni og má búast við að svör úr þeim rannsóknum liggi fyrir um miðja þessa viku. Við Hamraborg eru í eldi um 890.000 laxar í sjö sjókvíum og er megnið af fiskinum á bilinu 2-3,2 kg.

Líkt og áður hefur komið fram tilheyrir ISA-veiran fjölskyldunni Orthomyxoviridae og býr yfir flestöllum eiginleikum inflúensaveira sem við þekkjum hjá bæði fuglum og spendýrum. Þekkt eru tvö afbrigði ISA-veirunnar. Annað er góðkynja afbrigði sem aldrei veldur sjúkdómi eða tjóni (HPR0) og hitt er meinvirkt og veldur misalvarlegri sýkingu og afföllum (HPR-deleted).

Veiran er skaðlaus mönnum og berst ekki með fiskafurðum. Þess ber einnig að halda til haga að klínískur sjúkdómur hefur hvergi á heimsvísu verið staðfestur í villtum laxi í sínu náttúrulega umhverfi, jafnvel þó hin meinvirka gerð veirunnar hafi verið einangruð úr slíkum fiski.

Deila: