Mokuðu upp makríl við borgarísjakann
Þann 18. ágúst sl. var grænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq hætt makrílveiðum á Grænlandsmiðum og hafði snúið sér að síldinni. Skipið var á siglingu í leit að síld norðan Dorhn-banka þegar borgarísjaki birtist mönnum. Siglt var að jakanum til að skoða hann en þá gerðist hið óvænta; við jakann var vaðandi makríll á stórum blettum.
Að sögn Geirs Zoёga skipstjóra kom þetta mönnum mjög á óvart enda sjórinn einungis 1-3ᵒ á þessum slóðum. „Þetta kom okkur í opna skjöldu og við köstuðum strax. Skemmst frá að segja fengum við þarna við borgarísjakann 1.100 tonn í þremur holum á 48 klukkutímum. Þetta var hörkuveiði og skipti okkur miklu máli því makrílveiðin í grænlenskri lögsögu var ekkert sérstaklega góð í sumar. Makríllinn sem fékkst þarna var líka alveg einstaklega stór eða 560-570 gramma fiskur. Ég hef aldrei séð svona meðalstærð í afla. Þetta sýnir okkur svart á hvítu að makríllinn getur haldið sig í býsna köldum sjó. Að undanförnu höfum við veitt makríl í Smugunni og þær veiðar hafa gengið afar vel. Við höfum landað í Færeyjum og erum búnir að veiða og vinna 2.300 tonn á 12 dögum. Það er mjög gott,“ sagði Geir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.