Búlandstindur kaupir búnað frá Skaganum 3X

Deila:

Hátæknifyrirtækið Skaginn 3X og Búlandstindur skrifuðu undir samning á Íslensku sjávarútvegssýningunni um kaup á SUB-CHILLINGTM kerfi fyrir lax. Með þessari sölu er þetta fimmta SUB-CHILLINGTM kerfið sem Skaginn 3X selur á þessu ári en fyrirtækið skrifaði nýverið undir samning við Íslandsbleikju í Grindavík samkvæmt frétt á heimasíðu Íslensku sjávarútvegssýningarinnar.

Kerfið afkastar allt að 13 tonnum á klukkustund sem gerir fyrirtækjunum kleift að pakka öllum sínum laxi við -1°C, allt árið um kring.

Betri gæði

Elís Grétarsson, framkvæmdastjóri Búlandstinds, segir að ekkert annað hafi komið til greina þegar kom að vali á kæliaðferð fyrir laxavinnslu fyrirtækjanna. „Við slátrum laxi fyrir fiskeldi Austfjarðar og með SUB-CHILLINGTM tryggjum við bestu mögulegu gæði á afurðum og þannig tryggjum við okkur góða stöðu upp á möguleikan að slátra einnig fyrir aðra aðila í framtíðinni. Einnig náum við fram hagræði við flutning ásamt því að gæði afurðarinnar og geymsluþol eykst til muna“, segir Elís.

Markaðurinn fylgjandi okkar leið

Ragnar A. Guðmundsson, sölustjóri, segir ánægjulegt hversu ofarlega forstöðumenn Búlandstinds setja gæði í forgangsröðina . „Það er alltaf gaman að vinna með fólki sem setur gæði afurðarinnar í fyrsta sæti og vinnslunni ráðstafað eftir því“.

Ragnar býst við mikilli aukningu í sölu á SUB-CHILLINGTM kerfum á komandi mánuðum. „SUB-CHILLINGTM hefur heldur betur stimplað sig inn á markaðinn á þessu ári og er ég sannfærður um að fleiri samningar verði undirritaðir áður en árið er á enda“, segir Ragnar.

 

Deila: