Cajun fiskiréttur

Deila:

Þegar við erum orðin þreytt á hefðbundnum íslenskum uppskriftum að fiski, sem reyndar er algjör óþarfi, því þær eru óendanlega margar og góðar, getur verið gott að leita í aðrar hefðir. Þessi uppskrift er reyndar fengin úr íslenskum einblöðungi frá Vöku-Helgafelli, en fyrirmyndin væntanlega ekki fengin úr íslensku sjávarplássi.
Cajun-matargerð er runnin upp í New Orleans. Einkennandi fyrir hana eru sterkar kryddblöndur og baunir. Okkur finnst stundum gott að feta aðrar slóðir en við vorum alin upp við og því leggjum við til að reyna þessa fínu uppskrift. Reyndar hefur þverskorin ýsa engan drepið (kannski hamsatólgin) og það gerir þessi fiskréttur heldur ekki.

Innihald:

600 g þorsk- eða ýsuflök, beinhreinsuð og roðflett
2 tsk cajun-kryddblanda, t.d. frá McComick
1 dós nýrnabaunir
1 dós maísbaunir
2 græn epli eða 1 Jonagold
1 msk matarolía
1 dl brauðrasp
½ tsk natríumskert salt
½ tsk nýmalaður pipar
1 msk smjörvi.
750 g litlar rauðar kartöflur.

Aðferð:

Stillið grillið í ofninum á hæsta hita. Hellið vökva af nýrnabaunum og maís, Afhýðið epli og skerið í bita. Skerið fiskinn í mátulega bita og kryddið bitana með 1 tsk af cajun-kryddblöndunni. Hitið olíu á pönnu eða í potti og látið fiskbitana ásamt eplum og baunum út í og  látið malla í 10 mínútur.

Kryddið brauðraspið með afganginum af cajun-kryddblöndunni, salti og pipar.

Hellið fisk- og baunablöndunni í smurt eldfast mót og dreifið krydduðu brauðraskinu ofan á. Dreifið litlum smjörteningum yfir raspið.

Setjið fiskréttinn undir grillið og grillið í u.þ.b. 5 mínútur eða þar til raspið er orðið ljósgullið að lit.

Berið réttinn fram með kartöflum og grófu brauði.

 

Deila: