Með þúsund tonn af grálúðu í netin

Deila:

Kristrún RE er eina íslenska skipið sem stundar grálúðuveiðar í net allt árið. Afli skipsins nú er um 1.050 tonn frá kvótaáramótunum síðastlið haust. Frystitogarinn Guðmundur í Nesi er skráður með litlu meiri afla á aflastöðulista Fiskistofu eða 1.080 tonn. Anna EA er með 773 tonn. Anna, Þórsnes SH og Kap II stunda netaveiðar á grálúðu hluta af árinu.

„Nú erum við búnir að vera á grálúðu eingöngu í rúmlega eitt ár. Við byrjuðum í janúar í fyrra. Það hefur gengið ágætlega. Við höfum verið að taka 200 til 300 tonn á mánuði. Við tökum hana í net. Þórsnes SH, Anna EA og Kap II VE hafa líka verið á þessu, mest á sumrin. Við erum komnir með rúm þúsund tonn frá upphafi fiskveiðiársins,“ segir Pétur Karl Karlsson, annar skipstjóranna á Kristrúnu.

Pétur Karl Karlsson, skipstjóri á Kristrúnu RE er sáttur við grálúðuveiðarnar.

„Við stundum þessar veiðar fyrir Norðurlandi að mestu leyti, aðallega frá Kolbeinsey og vestur eftir. Við höfum reyndar farið líka austur með Norðurlandinu og suður með Austfjörðunum og þetta hefurgengið ágætlega.

Áhöfnin á Kristrúnu byrjaði á þessum veiðum 2008 og var með fyrstu skipunum sem fóru á þetta. Svo hefur þeim smám saman verið að fjölga, sérstaklega á sumrin. „Þetta kemur bara ágætlega út. Lúðan er hausskorin og sporðskorin og svo er blóðdálkurinn hreinsaður. Nákvæmlega eins vinnsla og er á frystitogurunum og allt hirt nema innvolsið. Þetta fer bara beint í gám og út til Austurlanda.

Hver túr er að jafnaði fjórar vikur og oftast erum við með fullfermi. Þetta er skemmtilegur veiðiskapur en þetta getur líka verið erfitt. Við erum með átta trossur og 80 net í trossunni. Þannig að hver trossa er fjórar mílur. Við erum svo að draga tvær trossur á dag,“ segir Pétur.

Það er ekki grálúða í matinn á hverjum degi, „hefur þú smakkað hana,“ spyr Pétur. „Hún er svakalega feit enda er töluvert lengur verið að frysta hana heldur en þorskflökin. Við erum helvíti góðir ef við náum 11 til 12 tonnum á sólarhring.“

Pétur segir að veiðin sé búin að vera svipuð þessi tíu ár sem þeir hafa verið að þessu, enda hefur heildarveiðin verið svipuð allan þann tíma.

Deila: