Aflinn nokkuð stöðugur verðmætið minna

Deila:

Grálúðuafli Íslendinga hefur verið nokkuð stöðugur þennan áratuginn  í rúmum 12.000 tonnum að meðaltali. Kvótinn á þessu ári er 13.400 tonn. Verðmæti frystrar útfluttrar gráðlúðu var 5,6 milljarðar árið 2017, sem er það lægsta undanfarin ár. Mest varð verðmætið 8,7 milljarðar 2013.

Hafrannsóknastofnun og Alþjóðahafrannsóknarráðið ráðleggja, í samræmi við nýtingarstefnu sem mun leiða til hámarksafraksturs til lengri tíma litið, að afli fiskveiðiárið 2018/2019 verði ekki meiri en 24 150 tonn. Samkvæmt samkomulagi milli Íslands og Grænlands mun 56.4% af ráðlögðu aflamarki koma í hlut Íslendinga.

Veiðistofn grálúðu var vel yfir skilgreindum gátmörkum fram til ársins 1990 en fór niður fyrir gátmörk árin 2004 og 2005. Síðan þá hefur veiðistofn stækkað og er nú yfir gátmörkum. Veiðidánartala hefur lækkað nokkuð á undanförnum árum og er nú nálægt því sem gefur hámarksafrakstur til lengri tíma litið .

Stofnmælingar gefa til kynna að veiðistofninn hafi haldist stöðugur undanfarin ár. Nýliðun hefur á sama tíma minnkað og því má búast við að stofnstærð minnki.

Á árunum 1980–1990 voru um 75–90% grálúðuaflans veidd á Íslandsmiðum. Frá 1990 hefur hlutdeild veiða á Íslandsmiðum dregist saman og er nú 50–60%. Mestur var aflinn árið 1989, um 60 þús. tonn. Á undanförnum árum hefur mest veiðst í botnvörpu, ríflega 87% aflans.

Deila: