Kannast ekki við ásakanir um landhelgisbrot

Deila:

Arngrímur Brynjólfsson Samherjaskipstjóri kannast ekki við þær ásakanir sem á hann eru bornar. Þetta sagði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja, í hádegisfréttum RÚV. Hann var handtekinn og leiddur fyrir dómara í gær, sakaður um að hafa verið við veiðar á hrygningarsvæði undan ströndum Namibíu. Namibíska ríkisútvarpið hefur greint frá því að Arngrími hafi verið gert að leggja inn vegabréfið sitt og að máli hans hafi verið frestað fram í lok janúar.

„Málið er í vinnslu, hann er ekki í varðhaldi og ég er að vona að hans mál leysist gagnvart yfirvöldum í Namibíu sem allra fyrst. Þetta eru ásakanir sem hann kannast ekki alveg við en mun svara þeim sjálfur þegar hann er laus frá Namibíu,“ sagði Björgólfur. Hann kvaðst ekki hafa heyrt í Arngrími sjálfur en Samherji hefði verið í sambandi við hann og héldi vel utan um hans mál.

Skipið Heineste, sem Arngrímur stýrði, er í eigu félags í Namibíu sem Samherji á hlut í. Auk Heineste á félagið í Namibíu tvö önnur skip.

 

Deila: