Hoffell með loðnu fyrir Japansmarkað
Hoffell kom í nótt með 400 tonn af loðnu til heimahafnar á Fáskrúðsfirði. Aflann fékk Hoffellið í tveimur köstum u.þ.b 5 mílum suðvestur af Hornafirði. Að sögn Bergs Einarssonar skipstjóra er loðnan væn og góð og fer beint til frystingar á Japansmarkað. Hrognafylling loðnunnar er um 15% sem gerir hana að afbragðsgóðri vöru fyrir Japan. Löndun og vinnsla hófst fljótlega eftir komu skipsins.
Bergur skipstjóri var inntur eftir því hvort að túrinn hefði gengið vel? „Allt gekk mjög vel og gott að finna loðnulyktina, það fylgir lyktinni ákveðin stemmning, mætti jafnvel kalla hana peninga lykt“ svaraði skipstjórinn og hló við en rætt var við hann á heimasíðu Loðnuvinnslunnar.