Síldarkvótinn að klárast

Deila:

Áfram er unnin íslensk sumargotssíld í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað af fullum krafti. Margrét EA kom með 1300 tonn að vestan á sunnudagd og Beitir NK með 1000 tonn í gær. Nú er síldarkvóti Síldarvinnsluskipanna langt kominn og gert er ráð fyrir að gert verði hlé á veiðunum fram í desember. Frá þessu segir á vef Síldarvinnslunnar.

Þar er rætt við Geir Sigurpál Hlöðversson, rekstrarstjóra fiskiðjuversins. Hann segir að vel gangi að vinna síldina, sem sé mest heilfryst en einnig séu framleidd samflök, eða flapsar. „Síldin er hið besta hráefni í alla staði. Þessi framleiðslutörn er orðin alllöng. Fyrsti síldarfarmurinn að vestan barst til okkar þann 24. október en þá var veiðum á norsk-íslenskri síld austur af landinu að ljúka. Nú eru komin til okkar um 16.000 tonn af íslenskri sumargotssíld,“ er haft eftir honum.

Deila: