Kynnir rannsóknir á hnísu og hrefnu

Deila:

Ralph Tiedemann, prófessor við Háskólann í Potsdam verður með erindi á málstofu Hafrannsóknastofnunar þann 27. nóvember næstkomandi, á milli klukkan 12:30 og 13:00.

Ralph Tiedemann, sem er prófessor við Háskólann í Potsdam, mun kynna nýjar rannsóknir á stofngerð hnísu og hrefnu í Norður-Atlantshafi, sem hefur verið samstarfsverkefni Hafrannsóknastofnunar og Háskólans í Potsdam í Þýskalandi um nokkur skeið. Áherslan í þessum rannsóknum hefur verið á betri upplausn, frá einstaka genasætum til greininga á erfðamengjum. Einnig er komið inná hvernig skyldleikagreiningar geta hjálpað við greiningu stofnagerðar og stofnstærðar.

Nýjar greiningar á hrefnu, byggðar á SNP greiningu, sýna nokkra ólíka hópa í N-Atlantshafi, en allir þessir hópar finnast þó við Ísland. Þessi greining sýnir líka blöndunarhlutföll milli þessara hópa, sem er hægt að nýta í stofngerðarlíkön og ráðgjöf innan Alþjóða hvalveiðiráðsins.

Greining á erfðamengjum hnísu sýna frekar lítinn breytileika milli svæða, og ekki er hægt að finna mismunandi stofna í N-Atlantshafi, þó svo að hægt hafi verið að auðkenna hópa við NV Grænland og í Eystrasalti, sem gæti bent til aðlögunar að umhverfinu á ákveðnum svæðum.

Deila: