„Lokatilboð“
Nú virðist vera að draga til tíðinda í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna. Sjómannasamband Íslands hefur lagt fram „lokatilboð“ í deilunni. Í því felst lækkun á kröfunni um breytingar á hlutdeild sjómanna í olíukostnaði en ekki hafa fengist upplýsingar um aðra þætti tilboðsins. Þátttaka sjómanna í olíukostnaði og endurheimt sjómannaafsláttar eru þær meginkröfur, sem nú standa óleystar.
Það er undir stjórnvöldum komið, hvort þau munu veita sjómönnum afslátt frá skattgreiðslum vegna vinnu fjarri heimahögum. Aðrar stéttir njóta þeirra fríðinda en yfirlýsingar frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar hafa til þessa ekki bent til þess að hún muni hafa afskipti af kjaradeilunni.
„Við ákváðum að leggja fram ákveðið tilboð til SFS til lausnar deilunni. Það er okkar lokahnykkur í málinu. Við komumst ekki lengra,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands. Hann tekur fram að tilboðið sé frá Sjómannasambandinu en alls standa fjögur félög í kjaradeilu við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. „Þetta verður kynnt þeim núna, í dag,“ sagði Valmundur um samskiptin við SFS í samtali við ruv.is í gær.
Valmundur vildi ekki tjá sig efnislega um tillöguna þegar fréttastofa ræddi við hann. Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari setti viðsemjendur í kjaradeilu útgerða og sjómanna í fjölmiðlabann fyrir rúmri viku.
Bryndís sagði í samtali við fréttastofu klukkan fjögur í gær að ekki hefði verið boðað til nýs fundar í kjaradeilunni. Hún er í samskiptum við viðsemjendur og boðar til fundar þegar hún telur framvinduna gefa tilefni til þess.
„Við hérna í samninganefndinni vorum bara að fá tilboð í hendurnar,“ segir Jens Garðar. „Að sjálfsögðu eru öll tilboð skoðuð og við munum að sjálfsögðu núna, við samninganefndin okkar, heyrast á eftir og svo bara sjáum við til með framhaldið,“ sagði hann í samtali við mbl.is
Spurður hvort hann bindi vonir við tilboðið segir Jens Garðar of snemmt að segja nokkuð til um það. „Ég var bara fyrir örskömmu síðan að fá tilboðið í hendurnar þannig að ég á nú alveg eftir að átta mig svona heilt yfir á því og reikna og fleira. Þannig að ég get ekkert sagt um það að svo stöddu.“
Jens fer fyrir samninganefnd SFS og gerir hann ráð fyrir að nefndin muni funda fljótlega í kvöld og síðan ræða við fulltrúa sjómanna í framhaldinu. Telur hann þó líklegt að það verði ekki fyrr en í fyrsta lagi á morgun. Jens vill þó ekki veita frekari upplýsingar að svo stöddu um eðli tilboðsins. „Við erum náttúrlega bundin bara fréttabanni,“ segir Jens Garðar. „Mér hefur líka sýnst það bara að fæst orð bera minnsta ábyrgð í þessu og það mættu fleiri tileinka sér það.“
Spurður hvort hafi verið til umræðu hjá samninganefnd SFS að gefa frekar eftir kröfur sjómanna segir Jens Garðar: „Í þessu verkfalli og þessum samningaviðræðum þá náttúrlega hafa menn verið að kasta fram og til baka ýmsum hugmyndum. Og auðvitað er það bara eðli samninga, að menn vonandi á einhverjum tímapunkti komast að niðurstöðu.“