Útiloka ekki samninga í vikunni

Deila:

Endurheimt sjómannaafsláttarins og olíuverðstenging er eitt af því sem steytir á í samningaviðræðum sjómanna og SFS. Annars hefur verið jákvæður tónn í forystumönnum fylkinganna og ekki talið ólíklegt að samningar gætu náðst í þessari viku. Samningafundur hefur verið boðaður klukkan 13.00 í dag, en verkfallið hefur nú staðið í rúman mánuð.

Fundað var mest alla síðustu viku og fram á laugardag. Hafður hefur verið sá háttur á að tekin eru fyrir ákveðin atriði hverju sinni og reynt að ljúka þeim og svo koll af kolli. Haft hefur verið eftir bæði Konráði Alfreðssyni, formanni Sjómannafélags Eyjafjarðar, sem leiðir samninganefnd sjómanna og Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, að viðræður séu á jákvæðum nótum og langt sé komið með að ræða helstu kröfur sjómanna. Útiloka þau ekki að samningar náist í vikunni.

Útflytjendur á ferskum fiski hafa átt í miklum erfiðleikum með að fá fisk til útflutnings enda lítið framboð á fiskmörkuðum þar sem aðeins smábátar mega róa. Framboðið í síðustu viku fór yfir 200 tonn á dag en á laugardag voru aðeins seld 150 tonn. Verð hefur engu að síður ekki verið í hæstu hæðum eins og um áramótin. Meðalverð á slægðum þorski á laugardag var til dæmis ekki nema 287 og óslægður þorskur fór á 274 krónur kílóið. Boðað heildarframboð rétt fyrir 10 í morgun var aðeins um 55 tonn.

 

Deila: