Vinna gelatín úr 50 tonnum af þorskroði á viku

Deila:

Myndatextar:

Erla Ósk Pétursdóttir segir að stöðugt sé unnið að því að í sjávarútveginum að nýta 100% þar sem dregið er úr sjó og gera úr því meiri og meiri verðmæti. Ljósmynd Ásta Kristjánsdóttir.

Það eru fjögur fyrirtæki sem standa að rekstrinum, en það eru Vísir og Þorbjörn í Grindavík, Samherji og Brim. Ljósmynd Jón Steinar Sæmundsson.

Vinnsluferlið er nokkuð flókið efnaferli þar sem hráefnið fer milli sílóa og filtera uns gelatín og collagen kemur út.Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

-rætt við Erlu Ósk Pétursdóttur framkvæmdastjóra Marine Collagen í Grindavík

„Þessi framleiðsla er gott dæmi um það hvað við Íslendingar erum komin langt í fullnýtingu þess sjávarafla sem á land berst. Við erum alltaf að stefna að 100% nýtingu og erum komin ansi langt áleiðis en samkvæmt greiningu Sjávarklasans þá er nýtingin á þorski hér á landi rúmlega 90%. Við erum í fararbroddi í heiminum í þessum efnum og stefnum ennþá lengra.  Til að ná lengra skiptir líka miklu máli að fyrirtækin vinni saman að þessu markmiði eins og við erum að gera í Marine Collagen. Þannig gengur dæmið frekar upp.“

Erla Ósk Pétursdóttir

Samvinna fjögurra fyrirtækja

Þetta segir Erla Ósk Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Marine Collagen í Grindavík. Vísir, Þorbjörn, Brim og Samherji standa saman að stofnun Marine Collagen. „Hugmyndin að stofnun fyrirtækisins byggist á þeirri hugsjón að vinna saman að betri nýtingu þess sem kemur á land og auka verðmæti. Með því að standa saman tryggjum við okkur meira hráefni til vinnslunnar. Samvinna er mjög rík í sjávarútveginum og tengdum greinum að nýta öll þau tækifæri sem gefast til betri nýtingar og aukinna tekna. Nýsköpun og þróun er mjög mikilvægur þáttur í sjávarútvegi á Íslandi,“ segir Erla og heldur áfram:

Sérstaða hráefnisins

„Byrjað var að vinna þorskroð í verksmiðjunni seinni hluta ársins 2020 og síðan þá hefur starfsemin stöðugt verið að aukast. Við erum enn að besta ferlið, sem er flóknari en hefðbundin fiskvinnsla, og laga það að íslensku hráefni. Ferlið fyrir hverja lotu tekur um 28 tíma. Fyrst er roðið hakkað, síðan er það meðhöndlað með sérstökum hætti til að ná meira próteini úr því og loks er það brotið niður. Síðan tekur við filtrun, þar sem efnið fer í gegn um fínni og fínni himnur til að skilja vatn frá próteinvökvanum. Vökvinn er síðan þurrkaður á tromluþurrkara. Vinnslan er eins fyrir bæði gelatín og collagen en við framleiðslu collagens er meiri filtrun og próteinið er brotið niður með ensímum. Gelatínið okkar hefur ákveðna sérstöðu þar sem það er unnið úr kaldsjávarfiski og hefur þannig aðra eiginleika en hefðbundið gelatín sem margir aðilar í matvælaframleiðslu sækjast eftir. Kaupendur eru aðallega í Asíu og Evrópu. Markaðurinn fyrir collagen er frábrugðinn. Þar eru kaupendur fleiri og smærri. Collagen fer mikið í snyrtivörur, fæðubótarefni og fleira af því taginu. Afurðir okkar eru unnar úr villtum fiski sem er veiddur og unnin á sjálfbæran hátt með fullum rekjanleika. Það nýtist vel við söluna á afurðunum.

Þarf ansi marga fiska

Fyrirtækið er að vinna úr kringum 50 tonnum af þorskroði á viku, en stærsta vikan hingað til eru 58 tonn. Það þarf ansi marga fiska í það. „Það er því mikilvægt að fyrirtæki vinni saman við svona framleiðslu og við erum að kaupa hráefni af mörgum aðilum. En þar sem við erum að vinna með afurð úr náttúrunni þá sveiflast hráefnisöflunin með veiðunum, og erum að vinna í því að geta notað fryst roð til að fylla uppí þegar veiðar minnka.  Við erum að vinna allan sólarhringinn fimm daga vikunnar en stefnum að því að vinna alla daga þegar fram líða stundir. Við reynum að gæta þess að ætla okkur um of og fara ekki framúr okkur í þessu verkefni,“ segir Erla.

Vinnsluferlið er nokkuð flókið efnaferli þar sem hráefnið fer milli sílóa og filtera uns gelatín og collagen kemur út. Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

Réttu megin við núllið

Við erum komin réttu megin við núllið í rekstrinum, þó við séum enn á uppbyggingar stigi. „Það er allt að seljast hjá okkur og við erum bara að framleiða upp í pantanir,“ segir Erla. „Það var mikið strögl að koma vinnslunni af stað þar sem þetta er ný vinnsla hér á Íslandi en við höfum lært gríðarlega mikið á þessum stutta tíma. Við þurfum að stækka til að auka hagkvæmnina og erum smám saman að auka vinnslugetuna. Við áætlum að vinna úr 2.000 tonnum af þorskroði á árinu en ætlum okkur í framtíðinni meira en það. Við notum aðeins ferskt þorskroð nú, en getum í framtíðinni einnig tekið fryst roð og roð af öðrum tegundum. Það eru ákveðnir eiginleikar í þorskinum sem henta vel til framleiðslu á gelatíni, en collagen má svo framleiða úr roði af öðrum fisktegundum líka. Við viljum búa til þannig verðmæti að það til dæmis borgi sig að koma með roðið sem fellur til á frystiskipunum í land,“ segir Erla Ósk Pétursdóttir.

Viðtal þetta birtist í fyrsta tölublaði Sóknarfæris á þessu ári. Blaðinu er dreift til fyrirtækja um allt land. Það má einnig lesa á heimasíðu útgáfunnar https://ritform.is/

Deila: