Sjö hásetar!

Deila:

„Alþjóðleg samkeppni tekur ekki mið af aðstæðum á Íslandi og geta íslensk sjávarútvegsfyrirtæki ekki bætt kostnaðarhækkunum við verðið. Barátta íslensks sjávarútvegs fer fram á ýmsum stöðum. Einna hörðust er hún á alþjóðlegum markaði, en rúmlega 98%, af öllum fiski sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki veiða, enda á alþjóðlegum markaði. Alþjóðleg samkeppni tekur ekki mið af aðstæðum á Íslandi og geta íslensk sjávarútvegsfyrirtæki ekki bætt kostnaðarhækkunum við verðið. Það þarf að leita annarra leiða og fjárfesting í nýjum búnaði til sjós og lands, er hluti af þeirri lausn.2
Svo segir í pistli sem birtur er á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar segir ennfremur:

„Þótt fjárfest hafi verið umtalsvert í íslenskum sjávarútvegi á liðnum árum þarf að bæta í. Samkvæmt varfærnu mati þurfa fyrirtæki í sjávarútvegi að fjárfesta fyrir að minnsta kosti 20 milljarða króna á ári, á næstu árum. Það leiðir hugann að því svigrúmi sem fyrirtækjunum er ætlað til þeirra hluta. Þá kemur að þætti veiðigjaldsins.

Á liðnu fiskveiðiári, frá september árið 2016 til loka ágúst árið 2017, var veiðigjald að meðaltali 3% af aflaverðmæti ísfisktogara hjá fyrirtæki sem var með fullan afslátt vegna lánatengdra kaupa á aflaheimildum. Það jafngildir 1,7 hásetahlutum, en einn hásetahlutur með launatengdum gjöldum er um 1,77% af aflaverðmæti. Með ríflega tvöföldun veiðigjaldsins milli fiskveiðiára og afnámi afsláttarins er öldin önnur og er hlutfallið á ísfisktogaranum komið upp í 12,5% af aflaverðmæti. Ef hásetahluturinn væri 1 milljón króna fór veiðigjaldið úr 1,7 milljónum króna í 7,1 milljón. Það er rífleg fjórföldun og fjölda háseta hefur fjölgað í sjö! Eða með öðrum orðum, útgerð þessa togara sem þetta dæmi miðast við, er að greiða jafngildi launa sjö háseta í veiðigjald, fyrir utan alla aðra skatta og gjöld sem standa þarf skil á.

Það má lengi takast á um það hversu mikið á að greiða til ríkisins, en veiðigjald upp á sjö hásetahluti verður að teljast nokkuð vel í lagt. Hættan er sú að geta sjávarútvegsins til fjárfestinga, sem margar hverjar eru í tækjum og tólum framleiddum á Íslandi, mun skerðast. Það mun hafa víðtæk áhrif. Hætt er við að íslenskur sjávarútvegur missi fótfestu á alþjóðlegum markaði og draga muni saman í rekstri fyrirtækja sem treysta og jafnvel byggjast á sterkum íslenskum sjávarútvegi. Fyrir utan hið augljósa að þau fyrirtæki sem verst standa munu hugsanlega leggjast af.“

 

Deila: