Sjávarútvegsskóli SÞ útskrifar nemendur

Deila:

Tuttugasti og fyrsti nemendahópurinn frá Sjávarútvegsskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna útskrifaðist í vikunni. Að þessu sinni voru um 20 nemendur í hópnum, þar af níu konur, sem luku námi og komu þau frá 15 löndum í Eyjaálfu, Asíu, Afríku, Mið-Ameríku og löndum í Karíbahafi.

Við athöfnina flutti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ávarp og Seion Richardsson frá Guyana flutti ávarp fyrir hönd útskriftarhópsins.

Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnar og formaður stjórnar skólans stýrði athöfnni og í lok hennar þakkaði hann Tuma Tómassyni skólastjóra ShSÞ sérstaklega fyrir vel unnin störf, en Tumi mun láta af störfum sem skólastjóri síðar á árinu.

Sjávarútvegsskóli háskóla Sameinuðu þjóðanna var stofnaður árið 1998 á grundvelli þríhliða samkomulags milli Háskóla Sameinuðu þjóðannautanríkisráðuneytisins og Hafrannsóknastofnunar. Síðan þá hafa 392 nemendur frá yfir 50 löndum lokið námi frá skólanum.

 

Deila: