Strandveiðar með breyttu fyrirkomulagi að hefjast

Deila:


Strandveiðar hefjast nú í maíbyrjun með breyttu fyrirkomulagi. Leyfilegur heildarafli er 10.200 tonn og er heimilt að hverjum bát sé haldið til veiða 12 daga í hverjum mánuði. Hér fer á eftir fyrirkomulag veiðanna samkvæmt upplýsingum Fiskistofu.

Athygli strandveiðisjómanna er vakin á að lögum sem varða strandveiðar hefur verið breytt og út er komin reglugerð nr. 414/2018 um strandveiðar 2017/2018. Helstu atriði sem hafa breyst og mikilvægt er að þekkja:

  • Heildaraflaheimild  til strandveiða er 10.200 tonn og er henni ekki skipt milli veiðisvæða
  • Hverjum strandveiðibát er heimilt að fara 12 veiðiferðir í mánuði í sumar á sínu veiðisvæði
  • Heimilt er að undanskilja afla í ufsa frá leyfilegum dagsskammti af kvótafiski til löndunar. Reglur um þetta eru svipaðar og um VS-afla. Nánari upplýsignar verða veittar þegar þær liggja fyrir.
  • Veiðisvæði báts ræðst af lögheimili eiganda þann 23. apríl 2018
  • Hafi  bátur veitt á öðru svæði en lögheimilið gefur til kynna á tveimur af þremur síðustu vertíðum er heimilt að  fá leyfi á því svæði. Það er gert með beiðni þar um  í tölvupósti til fiskistofa@fiskistofa.is

Vegna þess hve seint lögin voru sett og reglugerðin gefin út þá opnaði Fiskistofa  fyrir umsóknir um strandveiðileyfi 24. apríl sl. Stofnunin brýnir fyrir strandveiðisjómönum að leyfi sem gefin eru út á grundvelli umsókna sem bárust áður en lögin voru sett og reglugerð birt eru háð því skilyrði að farið skuli að þeim reglum sem  fram koma í breyttum lögum og reglugerð 414/2018.

Fiskistofa mun fara yfir umsóknir og útgefin leyfi og í tilfellum þar sem leyfi hefur verið gefið út á svæði á grundvelli  lögheimilisbreytingar eftir 23. apríl verður leyfið afturkallað og endurútgefið á  veiðisvæði í samræmi við lögheimili eiganda /útgerðar 23. apríl sl.  Þeir aðilar sem telja sig vera í þeirri stöðu sem að ofan er lýst eru hvattir til að hafa samband við Fiskistofu.

Að gefnu tilefni minnir Fiskistofa á að  skylt er að eigandi báts sé lögskráður á strandveiðibát.
Mikilvægt er því að gefa upp hver verður lögskráður á bátinn í umsókninni  með því að færa inn kennitölu viðkomandi einstaklings.

Upplýsingasíða um strandveiðar

Hér er sótt um í UGGA

 

 

Deila: