Makríllinn viðkvæmur fyrir þráa

Deila:

Ástand makríls sem veiddur er innan íslenskrar lögsögu veldur því að erfitt er að vinna hann. Rannsóknir á möguleikum tengdum flökun og geymslu á makríls sýna að dökkur vöðvi undir roði er viðkvæmur fyrir þráa. Markmið verkefnis sem nú er í gangi innan Matís er að meta möguleika á roðskurði makrílflaka og hvaða áhrif vinnslan hefur á gæði þeirra og stöðugleika. Það að fjarlægja roð og dökkan vöðva gæti skilað mun verðmætari flakaafurðum auk þess að skapa vettvang til þess að nýta hliðarhráefnið í verðmætar afurðir til manneldis.

Fortilraunir hafa sýnt að hægt er að fjarlægja roð og dökkan vöðva án þess að flakið fari illa, en mikla vinnu þarf að leggja í að aðlaga búnað, gera rannsóknir á stöðugleika roðlausra flaka ásamt því að leita leiða til að nýta það hliðarhráefni sem fellur frá við þá vinnslu. Að vinna makríl sem veiddur er innan íslenskrar lögsögu í hágæða roðlaus makrílflök og hliðarhráefni í aðrar virðisaukandi vörur getur skapað mikla verðmætaaukningu fyrir alla sem að koma, íslenskan sjávarútveg, þjóðina og umhverfið.

Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði og samstarfsaðilar eru Háskóli Íslands, Síldarvinnslan og Ísfélag Vestmannaeyja.

 

Deila: