Vísir endurbyggir línubát

Deila:

Vísir hf. í Grindavík er að láta endurbyggja gömlu Skarðsvík SH í Gdansk í Póllandi. Endurbyggingunni á að ljúka í febrúar 2018, gangi áætlanir eftir.

„Það er allt fjarlægt nema skrokkurinn, hvorki rör, spýta eða kapall skilið eftir. Það verður sett allt nýtt í skipið, vél, yfirbygging og allt annað. Þetta er ígildi nýsmíði,“ sagði Pétur H. Pálsson, framkvæmdastjóri í samtali við Morgunblaðið. Hann sagði stefnt að því að kostnaðurinn við endurbygginguna yrði um helmingur af því sem nýsmíði skips af svipaðri stærð mundi kosta.

Leysir af hólmi eldri bát

Vísir hf. hefur átt bátinn lengi en ekki gert hann út heldur geymt hann þar til nú. Pétur sagði að ástand skrokksins væri gott. Báturinn verður lengdur um 5 metra og verður að því loknu 45 metra langur á milli lóðlína. Bakki verður settur á skipið. Pétur sagði að eini munurinn á þessum báti og nýsmíði væri að nýsmíðað skip yrði væntanlega breiðara. Hann sagði að báturinn yrði mikið breyttur í útliti eftir endurbygginguna.

„Markmiðið er að hann beri um 120 tonn af afla í lest eða 400 kör. Hann hefur þá svipaða afkastagetu og Jóhanna Gísladóttir GK,“ sagði Pétur. Breyttur og bættur mun báturinn leysa af hólmi annað af elstu línuskipum Vísis hf., Sighvat GK eða Pál Jónsson GK sem bæði eru að komast á tíma. Pétur sagði að það væri á tveggja ára áætlun að allir bátar Vísis hefðu svipaða burðargetu.

Báturinn verður sérútbúinn til línuveiða. Línan verður dregin um hefðbundna lúgu inn í aflokað dráttarrými á millidekkinu, sem yfirleitt er ekki í öllum íslenskum línubátum. Einnig verður lokað færarými aftur á þannig að aldrei þarf að fara úr lokuðu rými þegar línan er lögð eða dregin. Vinnslurýmin verða stór, björt og örugg. Sett verður nýjasta gerð af blóðgunar- og aðgerðarkerfi í skipið og aflinn ísaður með krapa. Ekki er reiknað með að olíueyðsla minnki þótt ný vél fari í skipið, enda er olíukostnaður á línu ekki mikill.

Aðstaða áhafnarinnar verður miklu betri en hún er í dag. Ekki verður fækkað í áhöfn og skiptaprósentu ekki breytt vegna nýsmíðaákvæðisins. Í áhöfn eru 14 í hverjum túr en yfirleitt 21 í áhafnarhópnum. Skipverjar skiptast á um að vera um borð, eru ýmist tvær vikur á sjó og þá þriðju í landi eða fjórar vikur á sjó og tvær í landi.

Fimm landanir í viku

Vísir hf. gerir út fimm línubáta og markmiðið með þessum breytingum er m.a. það að hver bátur geti nýtt vikuna til veiða á allt að 120 tonnum og hvert og eitt skip eigi sinn löndunardag allt frá mánudegi til föstudags. Það þýðir að alla daga vikunnar hafa fiskhúsin tvö úr að moða 50-60 tonnum hvort. Það er það magn sem þau eru útbúin til að vinna úr daglega. Annað húsið vinnur flattan og flakaðan saltfisk en hitt framleiðir ferskar og frystar afurðir.

Deila: