Stefnir í metmánuð
Samkvæmt tölum frá Hagstofunni stefnir í að útflutningur í október á afurðum frá fiskeldi á Íslandi verði það mesta í einum mánuði nokkru sinni og verði í kringum 3 milljarða króna. Stærsti mánuðurinn hingað til er janúar á þessu ári, þegar eldisafurðir voru fluttar út fyrir 2,4 milljarða króna. Þetta má lesa úr bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti sem birtar voru í morgun. Í þeim tölum er ekki ítarleg sundurliðun á útflutningi, einungis birtar tölur fyrir yfirflokkana eins og landbúnaðarafurðir í heild þar sem eldisfiskur flokkast undir. Frá þessu er greint á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Komið í 20 milljarða?
Samkvæmt tölum morgunsins nam útflutningsverðmæti landbúnaðarvara 3,8 milljörðum króna í október, sem er ríflega tvöföldun frá sama mánuði í fyrra. Líklega hefur útflutningur á hinum hefðbundnu landbúnaðarafurðum (fiskeldi undanskilið) verið í kringum 1 milljarður króna, en talsvert er flutt út af sauðfjárafurðum á síðasta fjórðungi ársins. Ef svo er raunin er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í tæpa 20 milljarða króna fyrstu 10 mánuði ársins. Hagstofan birtir frekari sundurliðun á tölunum fyrir október í lok nóvember.