Engar ábendingar um efnislega annmarka á starfsleyfinu

Deila:

Eftirfarandi pistill birtist á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva í dag:

Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá því í fyrradag er fellt úr gildi starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á vegum fyrirtækisins Háafells í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Eins og Umhverfisstofnun (UST) bendir á í tilkynningu á heimasíðu sinni, koma ekki fram ábendingar í úrskurði nefndarinnar um efnislega annmarka á starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Enda segir ma í úrskurðinum: „Óumdeilt er að Umhverfisstofnun gaf umsagnir í tilefni af mati á umhverfisáhrifum umrædds fiskeldis og dregur úrskurðarnefndin í sjálfu sér ekki í efa að álit Skipulagsstofnunar hafi verið lagt til grundvallar hinu kærða starfsleyfi.“ Athugasemdir nefndarinnar lúta einkanlega að málsmeðferð og formsatriðum, sem skipta vissulega miklu máli.

Áhrif strokufisks úr eldinu gætu orðið óveruleg til nokkuð neikvæð. Áhrifin yrðu þó tímabundin og afturkræf segir í áliti Skipulagsstofnunar

Nokkur helstu efnisatriðin í úrskurði úrskurðarnefndarinnar
Hér verða rakin nokkur helstu efnisatriði í úrskurði nefndarinnar.
1. Ljóst er að athugasemdir úrskurðarnefndarinnar lúta að afgreiðslu Umhverfisstofnunar en ekki að verklagi fyrirtækisins sem starfsleyfið fékk.
2. Í úrskurði nefndarinnar er ekki verið að fella dóm um efnisatriði starfsleyfisins. Einvörðungu er um það að ræða að nefndin telur galla á málsmeðferðinni.
3. Veiðifélögin í Haffjarðará og Laxá á Ásum sem kærðu leyfisveitinguna voru EKKI talin hafa lögvarða hagsmuni.
4. Nefndin bendir á að öllum leyfisveitendum beri að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum.
5. Nefndin telur að á skorti í afgreiðslu UST um tilvísanir í álit Skipulagsstofnunar.
6. Í úrskurði nefndarinnar segir: Óumdeilt er að Umhverfisstofnun gaf umsagnir í tilefni af mati á umhverfisáhrifum umrædds fiskeldis og dregur úrskurðarnefndin í sjálfu sér ekki í efa að álit Skipulagsstofnunar hafi verið lagt til grundvallar hinu kærða starfsleyfi. Að því er hins vegar fundið að ekki sé með nægjanlega skilmerkilegum hætti vitnað í þetta álit.
7. Gagnrýnt er að greinargerðin frá UST sé ekki dagsett ( !!!!)
8. Birting niðurstöðu UST um starfsleyfi hafi tafist um of og þar sé heldur ekki að finna tilvísun í kæruheimildir og kærufresti.
9. Leita hefði átt álits hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar.
10. Athyglisvert er að úrskurðarnefndin kemst að þeirri frumlegu niðurstöðu að „telst sá fiskur veiddur sem sleppt er“. Er hér vísað til svo kallaðrar „veiða og sleppa“ aðferðar og sem getur leitt til þess að sami einstaklingurinn úr stofni laxa sem gengur í ár sé veiddur marg oft á sama veiðitímabilinu. Sem dæmi má þá nefna að séu 30 fiskar veiddir fimm sinnum yfir veiðitímabilið þá teljist veiðin 150 fiskar !!
11. Í úrskurðinum er vitnað til mats Skipulagsstofnunar þar sem segir: Áhrif strokufisks úr eldinu gætu orðið óveruleg til nokkuð neikvæð á náttúrulega stofna laxfiska í ám við innanvert Ísafjarðardjúp, sem fælust fyrst og fremst í hættu vegna smitsjúkdóma og réðust af umfangi slysasleppinga. Áhrifin yrðu þó tímabundin og afturkræf.

Vissulega veldur sú niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fella starfsleyfið úr gildi vonbrigðum en athygli vekur að hún snýr að málmeðferð en ekki efnisatriðum.

Frá Ísafjarðardjúpi. Því var haldið fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær að fiskeldisleyfi væru veitt á færibandi. Staðreyndin er hins vegar sú að frá því að breytingar sem Alþingi gerði á lögunum um fiskeldi og tóku gildi 1. janúar 2015, hefur aðeins eitt leyfi verið veitt og var þar um að ræða stækkun á þegar gildandi starfs- og rekstrarleyfi. Vilji menn kalla þetta færibandaafgreiðslu, hlýtur þetta að vera hæggengasta færiband í heimi !

Hægvirkasta færiband í heimi !
Þá er rétt að benda á að úrskurður úrskurðarnefndarinnar sýnir svart á hvítu að engin innistæða er fyrir því sem oft er haldið fram að leyfi til fiskeldis renni sem á færibandi í gegn um þær stofnanir sem veita álit,starfsleyfi og rekstrarleyfi. Ekkert er fjær sanni. Þvert á móti sýnir úrskurðurinn að reglurnar eru strangar, lögin gera ríkar formkröfur til stofnana sem um leyfin véla og málin þokast löturhægt í gegn um það ferli allt. Því var haldið fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær að fiskeldisleyfi væru veitt á færibandi. Staðreyndin er hins vegar sú að frá því að breytingar sem Alþingi gerði á lögunum um fiskeldi og tóku gildi 1. janúar 2015, hefur aðeins eitt leyfi verið veitt og var þar um að ræða stækkun á þegar gildandi starfs- og rekstrarleyfi. Vilji menn kalla þetta færibandaafgreiðslu, hlýtur þetta að vera hæggengasta færiband í heimi !

Umhverfisstofnun hefur á heimasíðu sinni, www.ust.is brugðist við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Er það gert með eftirfarandi hætti.
Hlutverk einstakra stofnana verði skýrt frekar
Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá í gær er fellt úr gildi starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi.
Umhverfisstofnun bendir á að þau atriði sem tilgreind eru sem helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs fiskeldis í innanverðu Ísafjarðardjúpi (aukin hætta á fisksjúkdómum) falla undir verksvið Matvælastofnunar. Ekki koma fram ábendingar um efnislega annmarka á starfsleyfi Umhverfisstofnunar.
 Skylda Umhverfisstofnunar til að útbúa flokkunarkerfi um álag af völdum mengunar af sjávarbotni kemur fram í 11. gr. laga um stjórn vatnamála. Kveðið var á um það í starfsleyfinu sem nú hefur verið fellt úr gildi að rekstraraðila bæri að sjá til þess að vatnsgæðum í viðtaka hrakaði ekki og tekið fram að heimilt væri að endurskoða leyfið s.s. ef ástand vatns færi hrakandi vegna rekstrarins og hætta væri á að það félli niður um flokk.
 Fram kemur í úrskurðinum að formgallar hafi verið á málsmeðferð Umhverfisstofnunar.
o Áhersla er lögð á að fram komi með skýrum hætti við útgáfu starfsleyfis afstaða stofnunarinnar til mats á umhverfisáhrifum. Umhverfisstofnun hefur bætt úr þessu við afgreiðslu nýrri starfsleyfa. Úrskurðarnefndin tekur þó fram að hún dragi ekki í efa að álit Skipulagsstofnunar hafi verð lagt til grundvallar starfsleyfinu.
o Þegar hefur verið bætt úr öðrum helstu ábendingum sem fram koma í úrskurðinum í nýrri ákvörðunum stofnunarinnar varðandi málsmeðferð og ættu önnur starfsleyfi því ekki að vera í uppnámi.
 Ljóst er að ábending úrskurðarnefndarinnar varðandi hvaða regla gildi um fjarlægðarmörk byggir á veiðihagsmunum fremur en lífrænu álagi. Umhverfisstofnun leitaði leiðbeininga Matvælastofnunar þegar tekin var afstaða til þessa atriðis til að gæta samræmis við lög um fiskeldi.
• Úrskurðurinn gefur að mati Umhverfisstofnunar tilefni til að skýra nánar hlutverk einstakra stofnana hvað varðar fiskeldi en stofnunin hefur þegar komið á framfæri ábendingum þar um til nefndar um stefnumótun í fiskeldi sem starfar á vegum atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins.

Deila: