Þetta er alveg magnað skip

Deila:

Akurey AK kom í fyrsta sinn til heimahafnar á Akranesi að morgni sl. þriðjudags eftir 12,5 sólarhringa siglingu frá Tyrklandi, þar sem skipið var smíðað. Akurey var vel á undan áætlun því gert hafi verið ráð fyrir því að heimsiglingin tæki allt að því 14 daga.
,,Það skotgekk hjá okkur á heimsiglingunni og þetta er alveg magnað skip. Eftir að við komum út á Atlantshaf fengum við mest norðaustan átt á okkur en einnig stífa vestanátt, 18-20 metra á sekúndu og allt að þriggja metra ölduhæð, en skipið haggaðist ekki. Við sigldum svo beint upp í ölduna til þess að reyna á sjóhæfnina. Það var sama sagan. Skipið haggaðist ekki frekar en í hliðarvindinum,“ segir Eiríkur Jónsson skipstjóri í samtali á heimasíðu HB Granda.
Að sögn Eiríks verður skipinu gefið formlega nafn í Akraneshöfn í dag en að lokinni móttökuathöfn verður skipið til sýnis. Í framhaldinu tekur svo Skaginn 3X við en eftir á að koma fyrir vinnslubúnaði á millidekki og setja sjálfvirkt lestarkerfi í skipið.

 

Deila: