Moka upp sæbjúgum
Rúm 2.000 tonn af sæbjúgum hafa veiðst það sem af er þessu fiskveiðiári og stefnir í mikla aukningu enn eitt árið. Níu bátar hafa leyfi til sæbjúgnaveiða og moka upp afla samkvæmt frétt af ruv.is
Friðrik Sigurðsson ÁR er þessa dagana á sæbjúgnaveiðum úti fyrir Vestfjörðum. Þótt sæbjúgu hafi lengi verið nýtt í lyf og bætiefni í Asíu er ekki langt síðan farið var að stunda þessar veiðar hér við land. Og aflinn eykst ár frá ári. Á síðasta fiskveiðiári veiddust ríflega 5.400 tonn – tvöfalt meira en árið þar á undan og það sem af er þessu fiskveiðiári hafa veiðst um 2.000 tonn. Ekki er eiginlegur kvóti á sæbjúgum og rætt hefur verið um að endurskoða löggjöfina.
„Eins og kerfið er núna fá níu bátar úthlutað veiðileyfi á hverju ári. Skilgreind eru níu veiðisvæði með ákveðinn heildarkvóta en utan þeirra mega menn veiða eins mikið af sæbjúgum og þeir vilja,“ segir Lárus Guðjónsson, skipstjóri á Friðriki Sigurðssyni ÁR.
„Við vorum fyrir austan og kláruðum það hólf. Komum svo hingað vestur og það er annað hólf hérna við Aðalvíkina, það var klárað líka en þetta svæði er utan. Það er ekkert hólf eða enginn kvóti hérna, það er bara frjálst og hérna erum við búnir að vera síðan fyrir jól. Tókum hérna 100 tonn á nokkrum dögum fyrir jól,“ segir Lárus.
Fjallað var um veiðarnar í Landanum í gær.