Heimilt að landa ufsa sem VS-afla á strandveiðum

Deila:

Samkvæmt lagabreytingu  og reglugerð um strandveiðar 2018 er hverju strandveiðiskipi heimilt að landa ufsa án þess að sá afli teljist til hámarksafla í veiðiferðinni, Ufsinn telst þá ekki með í  þeim 650 kg dagsskammti af slægðum kvótategundum sem heimilt er að veiða í hverri veiðiferð.

Til þess að nýta sér þetta þarf að tilkynna það á hafnarvog að ufsinn skuli skráður með þeim hætti að hluti andvirðis hans á markaði renni í VS-sjóðinn. Þetta þarf að gera við löndun en ekki eftirá.

Athygli er vakin á að þetta er ekki skylda og sá ufsaafli sem  ekki er skráður til VS-sjóðsins reiknast þá í þorskígildum til frádráttar á þeim 10.200 tonnum sem  heimilt er að veiða í  strandveiðum sumarsins.

Um ufsa sem ekki reiknast til heimilaðs afla í hverri veiðiferð strandveiðiskips gilda eftirtalin skilyrði:

  1. Að aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn sérstaklega og skráður.
  2. Að aflinn sé seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir og andvirði hans renni til sjóðs um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávar­afla,(VS-afli, verkefnasjóðour sjávarútvegsins)
  3. Að hámarksaflamagn ufsa strandveiðitímabilið 2018 sé 700 tonn.

Sé þessi heimild nýtt skulu forráðamenn uppboðsmarkaðarins þar sem aflinn er seldur standa skil á andvirði hins selda afla að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið. Þá skal útgerð skipsins fá 80% af andvirði selds afla sem skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um.

 

Deila: