Rauð kör fyrir rautt skip

Deila:

Nýlega komu til Seyðisfjarðar ný fiskikör sem Sæplast framleiddi fyrir ísfisktogarann Gullver. Körin er rauð að lit rétt eins og skipið en engin önnur sambærileg kör eru þannig á litinn. Hingað til hefur Gullver notað hefðbundin kör sem hafa verið sérmerkt skipinu en eins og hjá fleirum hafa þau kör horfið í verulegu magni. Víða má sjá kör merkt Gullver sem menn hafa tekið traustataki og notað með ýmsum hætti og þá ekki síst undir alls konar rusl. Gera menn sér vonir um að rauði liturinn á körunum minnki líkurnar á að þeim verði stolið. Frá þessu var sagt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Gullver ný kör

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem útgerð lætur framleiða fiskikör í sérstökum lit í þeirri von að það komi í veg fyrir að menn slái eign sinni á þau. Útgerðarfélagið Bergur-Huginn í Vestmannaeyjum lét sérframleiða fyrir sig græn kör þegar forsvarsmenn félagsins voru orðnir langþreyttir á karaþjófnaði. Rétt eins og hjá Gullver voru kör félagsins merkt félaginu auk hins sérstaka litar og var þess vænst að nú héldist því betur á þeim.

Bergur-Huginn hafði lengi glímt við það vandamál að körum félagsins var stolið og hefur Magnús Kristinsson framkvæmdastjóri látið hafa eftir sér að í reynd sé ótrúlegt hvernig menn umgangist fiskikör. Segir hann að menn sem almennt virði eignarrétt annarra virði alls ekki eignarrétt á fiskikörum og þeim þyki sjálfsagt að taka kör, jafnvel í nokkru magni, til að nota í eigin atvinnurekstri. Fullyrðir hann að stundum sé haft fyrir því að slípa merkinguna af körunum en oft sé það ekki einu sinni gert. Það að láta sérframleiða kör í ákveðnum lit sé tilraun til að koma í veg fyrir karaþjófnað en reynslan sýni að það dugi jafnvel ekki. Fiskikaraþjófar séu nefnilega einkar bíræfnir.

 Fiskikar frá Gullver NS við ónefnda byggingavöruverslun.

Fiskikar frá Gullver NS við ónefnda byggingavöruverslun.

Deila: