Örn Erlingsson látinn

Deila:

Örn Erlingsson, skipstjóri og útgerðarmaður er látinn. Örn Erlingsson fæddist í Steinshúsi í Gerðahverfi í Garði 3. febrúar 1937. Hann lést á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut 13. mars 2019. Útför hans fór fram frá Fossvogskirkju í gær.

Örn var sonur Erlings Eylands Davíðssonar og Guðrúnar Steinunnar Gísladóttur. Systkini eru Steinn, Steinunn, Þorsteinn, Pálína og Stefanía. Hálfbróðir þeirra er Ólafur Erlingsson. Eiginkona Arnar var Bergljót Stefánsdóttir, d. 2000, þau skildu 1987. Synir þeirra eru Stefán, Erlingur, Hjörtur og Örn. Dóttir Arnar frá því fyrir hjónaband er Dagfríður. Örn átti 12 barnabörn og fjögur barnabarnabörn. Sambýliskona Arnar frá árinu 2003 var Ingunn Þóroddsdóttir.

Örn ólst upp í Steinshúsi sem stóð á sjávarkambinum. Sjórinn og fjaran áttu hug Arnar þegar hann var að alast upp. Örn fór snemma að vinna á landi og sjó. Fyrsta formlega skipsrúm Arnar var á trillu sem var yfirleitt biluð og róðrar urðu ekki margir. Tólf ára gamall keypti hann trillu með föður sínum og réru þeir saman þegar færi gafst. Örn gekk í Barnaskólann í Garðinum. Foreldrar og afi hans vildu að hann færi í menntaskóla. En hugurinn leitaði til hafs. Örn var 16 ára þegar hann fór á fyrstu síldarvertíð sína á Björgvini GK og síðan var hann á á Trausta GK og Farsæli GK. Örn fór í Stýrimannaskólann 1956 og lauk meira fiskimannaprófi 1958. Eftir skólann var farið á síld fram á haust, í fraktsiglingar í sex mánuði og síðan aftur í sjómennskuna. Örn var stýrimaður í tvö ár á Voninni KE og eftir eina síldarvertíðina var sá bátur sérútbúinn til að veiða loðnu til bræðslu, en það hafði ekki verið gert áður á Íslandi. Árið 1964 tekur Örn við trébátnum Ingiber Ólafssyni KE, síðar nýsmíðinni Ingiber Ólafssyni KE og nýsmíðinni Eldey KE. Hvarf síldar 1968 varð til þess að Eldeyin fór í Norðursjóinn og til Austurstrandar BNA til að eltast við síld.

Árið 1969 hóf Örn störf við kennslu, veiðar og þróunaraðstoð í Busan í Suður-Kóreu á vegum FAO. Það verkefni stóð yfir í fjögur ár. Vorið 1973 festu Örn og Þorsteinn bróðir hans kaup á Erni SK 50 frá Hofsósi og byrjað var að fara á síld í Norðursjónum. Örn var skipstjóri á honum og gerði hann út. Útgerðinni gekk vel og fjárfest var í fiskvinnslum og fleiri bátum. Árið 1986 hættir Örn sem skipstjóri og fer í land að sinna útgerðinni sinni betur og öðrum verkefnum. Árið 1998 skiptu bræðurnir fyrirtækjum sínum upp. Hlutur Arnar var útgerðarfélagið Sólbakki ehf. og gerði Örn þá út Haförn KE 14 og Örn KE 13. Árið 1999 kemur nýsmíðin Örn KE 14 til landsins. Sá bátur var smíðaður í Póllandi og var sérhannaður snurvoðarbátur. Örn lét smíða uppsjávarskipið Guðrúnu Gísladóttur KE 15 í Kína. Það skip kom til landsins 2001 eftir meira en þriggja ára undirbúnings- og smíðatíma. Guðrún Gísladóttir KE 15 sökk við strendur Noregs 2002. Allir í áhöfninni björguðust. Örn hætti útgerð 2016. Örn var virkur í Oddfellowreglunni og félagi í Rótarýklúbbi Seltjarnarness.

Deila: