Sterk staða þorskstofnsins kemur ekki á óvart

Deila:

Jón Sólmundsson, fiskifræðingur og verkefnisstjóri Hafrannsóknastofnunar í stofnmælingum botnfiska nú í vor, segir jákvæðar niðurstöður mælinga á þorskstofninum ekki koma á óvart í ljósi þróunar undanfarinna ára. Árangur af ákvörðunum um fiskafla séu að skila sér og reikna megi með sterkri stöðu þorskstofnsins næstu ár ef umhverfisaðstæður haldast hagstæðar. Jákvæðar breytingar er einnig að sjá í ýsustofninum eftir langt niðursveifluskeið. Ægir ræddi við Jón um helstu niðurstöður stofnmælinganna og fer viðtalið hér á eftir.

Stórþorskurinn vel haldinn

„Hvað þorskinn varðar þá höfum við verið að sjá jákvæðar breytingar jafnt og þétt síðustu ár sem birtast hvað best í því að mun meira er af stórum þorski en áður var. Þegar við reiknum út meðalþyngdir eru þær miðaðar við aldur og við sjáum að í eldri árgöngum er fiskurinn mjög vænn en aftur á móti er meðalþyngdin talsvert lægri í yngstu árgöngum þorsksins. Hvað lesa má út úr því er ekki ljóst, annað en hið augljósa að stærri fiskurinn virðist hafa greiðari aðgang að fæðu en minni fiskurinn. Það þarf ekki endilega að þýða að stærri fiskurinn sé að taka fæðuna frá smærri fiskinum heldur getur fæðuval og aðgengi að fæðu verið mismunandi. Ýmislegt annað getur komið inn í þessa mynd t.d. ólíkar stofneiningar sem vaxa mishratt en okkur skortir rannsóknir á þeim breytileika,“ segir Jón.

Yngsti þorskárangurinn slakur

Almennt segir Jón að niðurstöðurnar sýni að ástandið í hafinu sé gott gagnvart vexti og viðgangi helstu fiskistofna. En er eitthvað í niðurstöðunum sem kemur á óvart, t.d. einhver veikleikamerki hvað þorskstofninn snertir?

„Nýjasti árgangurinn af þorskinum mælist lélegur og auðvitað eru alltaf vonbrigði að fá slíkar vísbendingar. Mælingarnar gefa góðar vísbendingar um hvernig árgangarnir eru og strax og við mælum eins árs fiskinn þá fáum við sterkar vísbendingar um hvort sá árangur kemur til með að gefa mikið af sér eða lítið þegar hann kemur inn í veiðina. Þetta er árangur sem ætti að koma inn í veiðina eftir þrjú ár en á móti vegur að árgangurinn á undan honum eru talsvert betri. Þar sem við erum alltaf að veiða úr mörgum árgöngum í einu þá er í lagi þó inn á milli komi slakir árgangar ef aðrir í kring eru sterkir,“ segir Jón.

Smáýsan sést á ný

Stofnmælingarnar í ár endurspegla þá þróun sem hefur verið í ýsustofninum, þ.e. tilfærslu hans norður fyrir landið.

„Þetta fór að gerast í ýsunni um eða upp úr síðustu aldamótum og aðal svæði hennar er nú frá Vestfjörðum og austur eftir Norðurlandinu. Mynstrið á ýsunni er því talsvert ólíkt því sem var lengstum áður þegar hún var aðallega fyrir Suðurlandi. Engu að síður fengum við ýsu allt í kringum landið en við getum sagt að aðal svæði hennar sé fyrir norðan. Ýsustofninn hefur verið í lægð en núna erum við með sterkan þriggja ára árgang sem er að koma inn í veiðina, fiskur sem er að nálgast kíló í stærð. Sjómenn eru farnir að verða varir við þennan árgang og við því má búast að smáýsa verði nokkuð algeng á næstunni, sem ekki hefur verið í langan tíma. Margir eldri árangar af ýsunni eru mjög lélegir þannig að þarna eru merki um að ýsan aðeins að rétta við eftir langt niðursveiflutímabil. Við getum sagt að á tímabilinu 2008 til 2013 hafi verið samfellt skeið lélegra árganga og stór ýsa fyrst og fremst verið áberandi í veiðinni síðustu ár. Það sjáum við að er að breytast með sterkari árgöngum eftir 2013.“

Loðnan getur haft áhrif á niðurstöður

Jón segir að þó niðurstaða togararallsins sé jákvæð þá sé vert að hafa í huga að óvissuþættir geti haft áhrif. „Niðurstöður eru háðar því hversu veiðanlegur fiskur er á svæðinu á þeim tímapunkti sem við förum þar yfir í mælingunum. Á það geta ýmsir þættir haft áhrif, svo sem loðnugengd og fleira. Þannig getur komið fyrir að við sjáum miklar sveiflur milli mælinga sem erfitt er að sjá eina tiltekna ástæðu fyrir. Niðurstöður úr síðasta haustralli voru til dæmis talsvert lakari í þorskinum en við bjuggumst við. Útkoma úr báðum þessum röllum eru því lagðar til grundvallar stofnmatinu, auk annarra mælinga sem við erum að gera árið um kring,“ segir Jón og bætir við að mikil loðnugengd nú á vetrarmánuðunum sé líkleg til að hafa áhrif á niðurstöður togararallsins í mars.

„Sem dæmi fengum við óvenju mikið af stórum þorski við suðurströndina en þegar við vorum að mæla þá var loðnan að fara yfir suðursvæðið. Það má segja að allt sé á mikilli ferð í lífríki sjávarins á þessum árstíma vegna loðnugengdarinnar,“ segir Jón en togararallið  í mars var nú framkvæmt 33. árið í röð og hefur alltaf verið togað með sama hætti. „Með þessum stöðluðu aðferðum við mælingarnar fáum við samanburðarhæfar niðurstöður frá einu ári til annars og þannig þarf það að vera í rannsóknum af þessu tagi.“

 

 

Deila: