Vinna grálúðu í Neskaupstað
Vinnsla á grálúðu er hafin í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Alls bárust 50 tonn til vinnslu í vikunni en það er Anna EA sem veiðir grálúðuna í net lengst norður af landinu og ganga veiðarnar vel. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Eyðun Simonsen verkstjóra og spurði hvernig vinnslan gengi. „Þetta er í fyrsta sinn sem grálúða er unnin hér í fiskiðjuverinu en þetta fer vel af stað. Við fengum mann frá Dalvík, sem þekkir vel til þessarar vinnslu, til okkar í gær og hann skoðaði aðstæður og leiðbeindi okkur. Við reiknum með að klára þennan fyrsta skammt fyrir helgi en síðan er von á öðrum skammti í næstu viku.
Við eigum að fá grálúðuna sporðskorna en síðan hausskerum við fiskinn og slógdrögum og síðan er hann frystur. Við flokkum grálúðuna í þrjá flokka eftir stærð og síðan eru hausarnir einnig flokkaðir og frystir. Þetta er gott verkefni fyrir okkur á meðan hlé er á uppsjávarvinnslunni,“ sagði Eyðun.
Ljósm. Karl Rúnar Róbertsson