Aðeins fjögur skip með kvóta í Rússasjó

Deila:

Aðeins fjögur íslensk fiskiskip eru nú skráð með aflaheimildir innan lögsögu Rússa í Barentshafi. 15 skip fengu úthlutun þar og er því búið að flytja heimildir af ellefu skipum yfir á hin fjögur.

Eftir þessa flutninga er Kleifaberg RE með mestar heimildir til þorskveiða í Rússasjónum, 1.604 tonn. Úthlutun á skipið var 270 tonn og því hafa verið flutt yfir á það 1.334 tonn af öðrum skipum. Auk þess getur leyfilegur meðafli orðið allt að 30%.

Næsta skip er Blængur NK með 918 tonn. Úthlutun hans var 154 tonn og yfir á hann því komin 764 tonn til viðbótar. Sólberg ÓF kemur næst með 584 tonn eftir að bætt hefur verið 57 tonnum við úthlutun þess. Fjórða skipið er Arnar HU með 432 tonn eftir flutning 26 tonna yfir á hann af Klakki SH, sem er í sömu eigu.
Samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu hefur ekkert skip tilkynnt um afla úr Rússasjó.

Deila: