Sólberg ÓF með mestan kvóta

Deila:

Frystitogarinn Sólbberg ÓF er með mestan kvóta íslenskra fiskiskipa á fiskveiðiárinu, sem hefst á morgun. Kvóti þess er ígildi 12.005 tonna af þorski. Næst kemur Guðmundur í Nesi RE með 11.299 tonn og þriðja hæsta skipið er Málmey SK með 11.917 tonn.

Reykjavík er sú heimahöfn, sem ræður yfir mestum heimildum, 11,65% heildarinnar eða 44,700 þorskígildistonn. Næst kemur Grindavík með 11,11% heildarinnar eða 42.620 tonn og síðan Vestmannaeyjar með 10,77%, eða 41.307 tonn.

Langmestar þorskveiðiheimildir eru vistaðar á skipum skráðum í Grindavík, 25.153 tonn. Hlutur Vestmannaeyja er 17.486 tonn og í þriðja sætinu er Reykjavík með 12.117 tonn.

Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2018/2019. Úthlutunin fer fram á grundvelli aflahlutdeilda að teknu tilliti til 5,3% frádráttar fyrir jöfnunaraðgerðir með sama hætti og á fyrra fiskveiðiári. Að þessu sinni er úthlutað 383.524 tonnum í þorskígildum talið samanborið við um 364.727 þorskígildistonn í fyrra, reiknað í þorskígildum fiskveiðiársins sem nú gengur í garð.Aukning á milli ára samsvarar því um 18.800 þorskígildistonnum. Úthlutun í þorski er rúm 208 þúsund tonn og hækkar um tæp 5.500 tonn frá fyrra ári. Ýsukvótinn er rúm 45 þúsund tonn og hækkar um 13.400 tonn.  Aukningin í  ufsakvótanum er 15 þúsund tonn. Tæplega 6 þúsund tonna samdráttur er úthlutun á gullkarfa en um 1.200 tonna aukning í djúpkarfa. Úthlutun á skarkola er rúm 7.100 tonn sem er um 3.000 tonna aukning frá fyrra ári. Úthlutun í íslenskri sumargotssíld er svipuð og í fyrra. Hrun er í úthlutun á úthafsrækju hún fellur úr tæpum 6 þúsund tonnum í fyrra í 6 tonn að þessu sinni. Þá má geta þess að nú er hlýra úthlutað í fyrsta sinn en leyfilegur heildarafli í honum er 1.001 tonn upp úr sjó. Úthlutað aflamark er alls 445.102 tonn sem er um 22.300 tonnum meira en á fyrra ári.

Vakin er athygli á að síðar á árinu verður úthlutað aflamarki í deilistofnum og ekki er óalgengt að aukið sé við aflamark í uppsjávarfiski. Benda má sérstaklega á að engri loðnu var úthlutað að þessu sinni. Þess vegna á heildaraflamark einstakra skipa og hafna og innbyrðishlutfall þeirra eftir að breytast í kjölfar slíkra úthlutana þegar líður á fiskveiðiárið.

Alls fá 540 skip úthlutað aflamarki að þessu sinni samanborið við 489 á fyrra fiskveiðiári. Skýringin á þessari miklu fjölgun liggur í því að fjöldi skipa hefur veiðireynslu í hlýra því hann veiðist víða í litlu magni sem meðafli. Fyrir vikið eru fjölmörg skip sem ekki hafa búið yfir neinum hlutdeildum nú komin með hlutdeild í hlýra og fá því úthlutað aflamarki í honum. Það skip sem fær úthlutað mestu aflamarki er Sólberg ÓF 1, en það fær 12.005 þorskígildistonn eða 2,7% af úthlutuðum þorskígildum.

Úthlutun eftir fyrirtækjum

Fimmtíu stærstu fyrirtækin fá úthlutað sem nemur um 86,1% af því aflamarki sem úthlutað er og er það 1,7 prósentustigum lægri tala en í fyrra. Alls fá 416 fyrirtæki eða lögaðilar úthlutað nú eða 44 fleiri aðilar en í fyrra. Sé litið til þeirra sem eru með mesta úthlutun fær HB Grandi, líkt og í fyrra, mestu úthlutað til sinna skipa eða 8,9% af heildinni, næst kemur Samherji með 6,3% og þá Þorbjörn hf. með 5,5%. Þetta er sama röð efstu fyrirtækja og undanfarin ár.

Úthlutun eftir heimahöfnum

Þrjár heimahafnir skera sig úr eins og undanfarin ár með að skip sem þeim tilheyra fá töluvert mikið meira úthlutað í þorskígildum talið en þær hafnir sem á eftir koma. Mest fer til skipa með heimahöfn í Reykjavík eða 11,7% af heildinni samanborið við 12,3% í fyrra. Næstmest fer nú til Grindavíkur, eða 11,1% af heildinni samanborið við 10,8% á fyrra ári. Skip með heimahöfn í Vestmannaeyjum ráða fyrir 10,8% úthlutunarinnar samanborið við 9,9% í fyrra.

Hlutfall sem fer til skipa hjá hverri höfn fyrir sig breytist í flestum tilvikum eitthvað og má rekja það til breytinga á þorskígildisstuðlum sem og tilfærslu aflahlutdeilda á milli skipa með ólíka heimahöfn. Vísað er til yfirlitstöflunnar sem tengill er í hér að neðan.

Vakin er athygli á því að þar sem þessi gögn eru tekin saman daginn fyrir upphaf fiskveiðiársins en ekki  fyrsta dag þess eins og  venja er þá eru nokkrir bátar með aflamark enn skráðir til strandveiða og  er aflamarkið í sumum  höfnum  að hluta tilgreint sem tilheyrandi strandveiðibátum – þetta verður leiðrétt nú eftir helgina í  uppfærðu skjali.

Úthlutun eftir útgerðarflokkum

Bátar með krókaaflamark eru nú 315 og fjölgar um 38, einkum vegna  úthlutunar á hlýra. Skipum í aflamarkskerfinu fjölgar um 13 á milli ára og eru nú 225. Athygli vekur að togurum fjölgar um  þrjá eftir árvissa fækkun undanfarið en þeir eru engu að síður 14 færri en við upphaf fiskveiðiársins 2013/2014. Togararnir eru nú 42 í íslenska flotanum. Samkvæmt útgerðarflokkun Fiskistofu fá skuttogarar úthlutað rúmum 222 þúsund tonnum af því heildaraflamarki sem úthlutað var að þessu sinni og skip með aflamark fá tæp 168 þúsund tonn. Smábátar með aflamark og krókaaflamarksbátar fá tæp 55.200 tonn. Vakin er athygli á því að til krókaaflamarks telst eingöngu úthlutun á þorski, ýsu, ufsa, gullkarfa, löngu, keilu og steinbít.

Skel- og rækjubætur

Alls 1.990 þorskígildistonnum er úthlutað nú í upphafi árs sem skel- og rækjubótum en það er um 50 tonnum minna en í fyrra og fara þau til 46 báta samanborið við 40 báta á fyrra ári.

Hér má sjá heildarskrá yfir úthlutun aflamarks til einstakra skipa, rækju- og skelbætur ársins og yfirlitsskjal þar sem hægt er að skoða úthlutunina út frá margvíslegum sjónarhornum.

 

 

Deila: