Auknar landanir í Færeyjum

Deila:

Landanir á fiski, öðrum en uppsjávarfiski, í Færeyjum jukust á fyrsta þriðjungi ársins. Alls fóru 26.372 tonn gegnum löndunarkerfið í Færeyjum á þessu tíma bili. Það er aukning um 2.689 tonn eða 11,4%. Aflaverðmætið jókst einnig og varð alls um 5,2 milljarðar íslenskra króna. Það er vöxtur um 7,5%

Botnfiskaflinn nú varð 20.546 tonn, sem er aukning um 2.002 tonn eða 10,8%. Þorskaflinn varð 6.383 tonn sem er vöxtur um 21,4%. Af ýsu var landað 2.080 tonnum sem er 55 tonnum meira en í fyrra. Ufsaaflinn varð 8.879 tonn, sem er vöxtur um 12,7%.

Flatfiskaflinn dróst saman og varð 1.331 tonn, sem er 155 tonnum minna en á sama tímabili í fyrra. Þar munar mestu um mikinn samdrátt í grálúðuveiðum. Landaður afli varð nú 910 tonn, en 1.075 tonn í fyrra. Landaður skelfisafli nam 1.278 tonnum sem er vöxtur um 27,5%.

Þegar litið er á verðmætið skilaði botnfiskurinn 4,2 milljörðum króna, sem er 10,% vöxtur. Þorskurinn skilaði nálægt helmingi þess, eða ríflega tveimur milljörðum íslenskra króna. Það er aukning um 21,4%, sem sýnir að verð á þorskinum hefur að meðaltali staðið í stað umrætt tímabil. Verðmæti ýsuaflans var nú 436 milljónir króna, sem er 11,2% samdráttur og hefur meðalverð á henni lækkað töluvert. Ufsinn skilaði 994 milljónum og er það hækkun um 15,2%, sem er heldur hærra hlutfall en í magninu.

Verðmæti flatfiskaflans varð 647 milljónir og er það samdráttur um 9,1%. Þar munar mestu um grálúðuna. Hún skilaði nú 578 milljónum króna sem er fall um 15,6%. Það er í samræmi við aflasamdráttinn. Verðmæti skelfisks varð 55 milljónir króna, sem er samdráttur um 6%.

Deila: