Frumvarp um lækkun veiðigjalds lagt fram

Deila:

Meirihluti atvinnuvegaefndar Alþingis hefur lagt fram frumvarp til laga um lækkun á veiðigjöldum frá og með fyrsta júlí til ársloka. Í frumvarpinu er að auki ákvæði þess efnis að breytingin verði afturvik til síðustu áramóta og komi mismunur á greiddu veiðigjaldi til þessa til frádráttar við greiðslu hins lækkaða gjalds. Þá er veittur afsláttur af gjaldinu fyrir þá sem minni gjöld greiða.

Samkvæmt frumvarpinu lækkar veiðigjald á hvert kílós af þorski úr 22,98 krónum í 16,45 krónur. Gjaldið á ýsu fer úr 26,20 krónum í 19,08 krónur, en á þessum tegundum hækkaði gjaldið hvað mest á þessu fiskveiðiári.  Gjald á aðrar tegundir lækkar sömuleiðis og líklega mest á öfugkjöftu, en það lækkar úr 15.86 krónum í 6,91. Samkvæmt endurvirkni gjaldsins ætti það í raun enn meira frá og með fyrsta júlí.

Í frumvarpinu segir svo:

„Við álagningu veiðigjalds samkvæmt ákvæði þessu skal telja til frádráttar, hjá hverjum gjaldskyldum aðila, fjárhæð sem nemur mismuninum á greiddu veiðigjaldi vegna landaðs afla frá 1. janúar til 1. júlí 2018 og fjárhæð sem nemur reiknuðu gjaldi á sama afla samkvæmt töflu í 1. mgr. Standi eftir ónotaður réttur til slíks frádráttar við lok árs 2018 skal hann greiddur úr ríkissjóði eigi síðar en 1. febrúar 2019.
Við álagningu veiðigjalds samkvæmt ákvæði þessu á hver gjaldskyldur aðili sem greiddi minna en 30 millj. kr. í veiðigjald á næstliðnu fiskveiðiári rétt til afsláttar sem nemur 30% af fyrstu 5,5 millj. kr. álagðs gjalds og 20% af næstu 5,5 millj. kr. Áður veittan afslátt skv. 1. málsl. 5. mgr. 9. gr. vegna landaðs afla eftir 1. september 2017 skal reikna til frádráttar þessum afslætti.“
Í greinargerð með frumvarpinu segir ennfremur: „Frumvarp þetta hefur að geyma áform um endurákvörðun veiðigjalds fyrir almanaksárið 2018. Að óbreyttu er ekki heimild í gildandi lögum um veiðigjald til álagningar veiðigjalds á landaðan afla í botnfiskstofnum eftir upphaf næsta fiskveiðiárs, 1. september 2018, en lögin falla úr gildi 31. desember sama ár. Því er mikilvægt að frumvarp þetta verði að lögum fyrir þingfrestun. Samtímis er frumvarpinu ætlað að fela í sér nauðsynlega endurákvörðun gjaldsins með hliðsjón af áliti veiðigjaldsnefndar um verulegan samdrátt í afkomu við veiðar fiskiskipa. Ekki er verið að leggja til breytingar á ákvæðum laga um veiðigjald um fyrirkomulag við álagningu og innheimtu veiðigjalds heldur aðeins verið að breyta þeim krónutölum á hvert kílógramm óslægðs afla sem álagningin miðar við auk breytinga varðandi svonefndan persónuafslátt skv. 9. gr. gildandi laga.“

Deila: