„Rangfærslur, útúrsnúningar og þöggun“

Deila:

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sendir seðlabankastjóra tóninn í pistli á heimasíðu fyrirtækisins. Hann rifjar þar upp sex ára sögu frá því Seðlabankinn gerði húsleit hjá Samherja í mars 2012 og segir að málatilbúnaður Seðlabankans hafi verið í skötulíki og andvana fæddur.

„Þann 27. mars næstkomandi eru sex ár liðin frá því að Seðlabanki Íslands blés til stærstu húsleitar fyrr og síðar hér á landi. Ráðist var inn á höfuðstöðvar Samherja á Akureyri og þrjá aðra staði á Akureyri og í Reykjavík og allt hirt. Eftirtekjan af málinu er engin, öllu hefur verið hnekkt en áfram heldur seðlabankastjóri þó með áfrýjun á ógildingu héraðsdóms Reykjavíkur á stjórnvaldssekt sem bankinn lagði á Samherja á haustmánuðum árið 2016. Að þurfa að sitja undir svona tilhæfulausu ásökunum seðlabankastjóra í sex ár er refsing, sem ég og aðrir starfsmenn höfum þurft að þola að ósynju. Koma hefði mátt í veg fyrir þetta allt saman ef bankinn hefði einungis virt þær meginreglur sem stjórnvöldum ber að hafa að leiðarljósi: meðalhóf og andmælaréttur,“ segir Þorsteinn Már í inngangi pistilsins.

Hann segir ennfremur: „Sumir gætu sagt að ég væri enn að endurtaka mig. Og að vissu leyti er það rétt. Ástæða þess er réttlætiskennd mín fyrir því að svona vinnubrögð eiga ekki að vera liðin í samfélagi eins og okkar. Seðlabankinn hefur verið gerður afturreka með allar sínar ásakanir en heldur samt áfram og virðist fá að komast upp með það. Til þess hefur Seðlabankinn beitt öllum tiltækum ráðum og klækjum: rangfærslum, útúrsnúningum og síðast en ekki síst þöggun.

Vegna þessa hef ég ákveðið að fjalla frekar um málið á komandi vikum og birta nokkur bréf, sem voru send bankaráði í fyrra en bankaráð hefur ekki talið sig þurfa að svara þrátt fyrir að hafa fundað margsinnis á tímabilinu, auk annarra upplýsinga. Það sem ég mun birta tel ég sýna fram á vísvitandi rangfærslur í málflutningi bankans, ætluð brot á lögum og brotalamir í innviðum bankans sem leitt hafa til þess að bankinn hefur haldið lífi í tilhæfulausum ásökunum á hendur Samherja og tugum annarra einstaklinga og lögaðila.”

Pistilinn í heild má lesa á heimasíðu Samherja; http://www.samherji.is/is/frettir/sex-ar-tilhaefulausra-asakana

 

 

 

Deila: