Tekið á móti Engey í Reykjavík

Deila:

HB Grandi hefur boðið til móttöku við Norðurgarð í Reykjavík vegna nýja ísfisktogarans Engeyjar RE á morgun, föstudag. Engey kom til landsins frá Tyrklandi í lok janúar sl. en síðan þá hefur togarinn verið á Akranesi þar sem starfsmenn Skagans 3X hafa séð um niðursetningu á vinnslubúnaði á millidekkinu og sjálfvirku, mannlausu lestarkerfi. Engey verður síðan til sýnis fyrir almenning frá kl. 13-16 á laugardag.

Dagskráin á föstudag hefst með því að Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, býður gesti velkomna en síðan halda Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, og S. Björn Blöndal, forseti borgarráðs Reykjavíkur, stuttar ræður. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mun því næst gefa skipinu formlega nafn og sr. Hjálmar Jónsson, sóknarprestur í Dómkirkjuprestakalli, mun blessa skipið. Við athöfnina mun Karlakór Reykjavíkur syngja tvö lög og eins mun Margrét Arnardóttir, harmonikkuleikari, flytja nokkur lög um borð.

Deila: