Léleg veiði hjá togurunum fyrir austan

Deila:

Að undanförnu hefur verið afar léleg veiði á hefðbundnum miðum Austfjarðatogaranna. Gullver NS kom til Seyðisfjarðar aðfaranótt þriðjudags með tæplega 85 tonn, en aflinn fékkst á Selvogsbanka. Barði NK var einnig að veiðum á Selvogsbanka og kom til Neskaupstaðar á þriðjudagsmorgun með rúmlega 100 tonn.

Skipstjóri á Gullver í veiðiferðinni var Þórhallur Jónsson og sló heimasíða Síldarvinnslunnar á þráðinn til hans. Sagði Þórhallur að ástandið á Austfjarðamiðum væri mjög dapurt og því þyrftu togararnir að leita á fjarlægari mið. „Það er nánast enginn þorskur hér fyrir austan og það litla sem fæst er lélegur fiskur. Fyrir um það bil mánuði kom þó dálítið skot í Litladýpi en það varaði afar stutt. Þar fékkst þó góður þorskur. Við á Gullver og Barði NK og Ljósafell SU höfum reynt fyrir okkur á hefðbundnum Austfjarðamiðum að undanförnu en afar lítið hefur fengist. Þess vegna hafa allir þessir togarar veitt á Selvogsbankanum. Það er í reyndinni bölvað að þurfa að sækja svona langt – við erum hátt í 60 tíma á stími í hverjum túr og höfum þá einungis tvo og hálfan sólarhring til að veiða. Á Selvogsbanka hafa komið góð veiðiskot og þar hefur fengist bæði góður þorskur og ufsi. Við trúum því að ástandið á Austfjarðamiðum sé tímabundið og hljóti að fara að breytast til batnaðar. Þorskurinn þarf að fara að sýna sig á okkar hefðbundnu miðum,“ sagði Þórhallur.
Ljósmynd Ómar Bogason.

 

Deila: