Eimskip hefur endurkaup hlutabréfa
Stjórn Eimskips hefur tekið ákvörðun um að hefja endurkaup hlutabréfa fyrirtækisins fyrir allt að 500 milljónir króna. Endurkaupin munu að hámarki nema 3.125.000 hluta eða um 1,6% af útgefnum hlutum í félaginu. Gert er ráð fyrir að endurkaup samkvæmt áætluninni hefjist í dag, 2. desember og mun áætlunin vera í gildi fram til 24. janúar 2020, nema skilyrði um hámarkskaup verði uppfyllt fyrir þann tíma. Endurkaupin eru í samræmi við samþykktir félagsins frá júlí 2018.
Samkvæmt tilkynningu frá Eimskip segir að gengi á hlut skuli ekki vera hærra en hæsta gengi af eftirfarandi; lokagengi síðasta viðskiptadags, síðustu óháðu viðskipta eða í hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði á þeim markaði sem viðskipti eru átt með hlutabréf í Eimskip. Hámarksmagn hvers viðskiptadags er fjórðungur af meðaltali daglegra viðskipta með hlutabréf félagsins á aðalmarkaði í nóvember 2019. Hámarksfjöldi leyfilegra hluta á hverjum viðskiptadegi verður því 69.185.
„Endurkaupaáætlun verður framkvæmd af Íslandsbanka sem tekur allar viðskiptaákvarðanir er varða kaup á hlutum og tímasetningu kaupanna, óháð félaginu. Framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar verður í samræmi við lög um hlutafélög nr. 2/1995 og viðauka við reglugerð um innherjaupplýsingar og markaðssvik nr. 630/2005. Viðskipti með eigin hluti í samræmi við endurkaupaáætlunina verða tilkynnt eigi síðar en við lok sjöunda viðskiptadags eftir að viðskiptin fara fram,“ segir í tilkynningunni frá Eimskip.