Vinnslustöðin kaupir saltfiskvinnslu í Portúgal

Deila:

Vinnslustöðin hf. hefur keypt saltfiskvinnslufyrirtækið Grupeixe í Portúgal. Frá kaupunum var gengið fyrir helgina og Vinnslustöðin hefur þegar tekið við rekstri portúgalska félagsins.

Grupeixe er framleiðslu-, dreifingar- og sölufyrirtæki fyrir saltfisk í borginni Aveiro í norðurhluta Portúgals. Það er meðalstórt í á sínu sviði þar í landi, veltir jafnvirði um 1,8 milljarða króna ári og seldi um 2.300 tonn af afurðum árið 2017. Starfsmenn eru um 30 talsins. Fyrirtækið kaupir þorsk frá Íslandi, Noregi, Rússlandi og víðar að til að þurrka og dreifa á mörkuðum sínum.

Forstjóri Grupeixe, José Maria Pereira Cachide, stofnaði fyrirtækið 1993 og rekur það ásamt fjölskyldu sinni. Hann mun starfa í tvö ár með nýjum eigendum en Nuno Araújo verður framkvæmdastjóri Grupeixe.

Nuno er Portúgali og hefur starfað sem sölustjóri VSV í Portúgal undanfarin ár og skilað þar afar góðu verki, segir Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar:

„Saltfiskmarkaðurinn í Portúgal skiptir Vinnslustöðina miklu máli og við höfum lengi lagt okkur eftir því að sinna honum vel og alúðlega. Saltfiskhefð Portúgala er mikil og sterk.

Kaupin á Grupeixe eru í samræmi við þá stefnu Vinnslustöðvarinnar að færa sig nær mörkuðum og viðskiptavinum erlendis. Síðla árs 2017 urðum við meðeigendur í Okada Suisan í Japan, rótgrónu fjölskyldufyrirtæki sem hefur nær 50% markaðshlutdeild loðnuafurða þar í landi. Við skynjuðum strax afar vel hve miklu þetta skref skilaði Vinnslustöðinni og treystir stöðu hennar í Asíu en þangað fara nú tæplega 50% allra frystra uppsjávarafurða félagsins. Kaupin á Grupeixe eru rökrétt skref í ljósi þeirrar reynslu.

Engar breytingar verða á starfsemi okkar í Vestmannaeyjum vegna þessa en víst er að þetta skref styrkir og treystir saltfiskvinnslu okkar í sessi.

Kaupin áttu sér nokkurn aðdraganda og ég tek þau sem traustsyfirlýsingu gagnvart Vinnslustöðinni. Þannig erum við fyrsta útlenda fyrirtækið sem eignast að fullu saltfiskfiskvinnslu í Portúgal og gerumst þar með beinir þátttakendur í rótgrónum atvinnurekstri með tilheyrandi hefðum og sögu.

Portúgalar eru mestu neytendur þorsks í heiminum.  Þeir gengu í gegnum djúpa og langvarandi efnahagskreppu fyrir nokkru og drógu um hríð úr saltfiskkaupum af okkur og verðið lækkaði líka. Við snerum samt ekki við þeim baki, heldur þraukuðum með þeim gegnum samdráttarskeiðið.  Svo fór landið að rísa og markaðurinn að taka við sér.

Kaupin eru að sjálfsögðu stefnumarkandi.  Með þeim skuldbindum við okkur til að sinna vel verðmætum saltfiskmarkaði Íslendinga.  Til að mynda er netafiskur, veiddur á vetrarvertíð við suður- og vesturströnd Íslands og saltaður, jólamatur Portúgala og á sér ríka hefð.

Við höfum undirbúið sókn okkar erlendis með markaðsrannsóknum í nokkrum löndum. Niðurstaðan var að stíga þetta skref.  Nú er framtíðin í okkar höndum og við munum að sinna af alúð veiðum, vinnslu, sölu og markaðssetningu verðmætra sjávarafurða okkar.“

 

 

Deila: