VSV með hátt verð fyrir karfa í Þýskalandi

Deila:

Vinnslustöðin fékk nær alltaf meira greitt fyrir ferskan, heilan karfa á Þýskalandsmarkaði frá janúar 2016 til maí 2017 en sem svaraði til jafnaðarverðs sömu vöru allra íslenskra seljenda á sama markaði á þessum tíma. Mestu munaði í mars 2017 þegar söluverð VSV var nær 24% yfir landsmeðaltalinu.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson

Þetta kemur fram í skýrslu Eyjamannsins og knattspyrnumannsins Gunnars Heiðars Þorvaldssonar sem hann vann að í starfsnámi sínu í haftengdri nýsköpun við Háskólann í Reykjavík. Um verkefni hans og fleira er fjallað um á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Markmiðið var að greina stöðu mála á karfamarkaði í Þýskalandi með því að rýna í gögn Hagstofu Íslands og greiningarfyrirtækisins Markó Partners um útflutning íslenskra sjávarafurða og ræða við markaðsfólk og sérfræðinga í matvælasölu og karfaviðskiptum á Þýskalandsmarkaði hérlendis og erlendis. Þá fékk skýrsluhöfundur upplýsingar frá Vinnslustöðinni og bar þær saman við gögn Hagstofunnar.

Íslenskur karfi er seldur til Þýskalands í fjórum afurðaflokkum. Sá langstærsti er heill, ferskur karfi og þannig er líka mestallur karfi sem Vinnslustöðin selur Þjóðverjum.

  • Frá janúar 2016 til maí 2017 fékk Vinnslustöðin oftast 3,5-8,5% meira fyrir kílógrammið af heilum, ferskum karfa á Þýskalandsmarkaði en sem svaraði til íslenska meðalverðsins fyrir sömu vöru. Munurinn var mestur í mars 2017 (23,8%) og í apríl 2017 (20%).

Hafa ber í huga að þarna er borið saman FOB-verð, söluverð að frádregnum flutningskostnaði og öðrum kostnaði sem til fellur vegna útflutningsins.

Sömuleiðis skal haft í huga vð samanburðinn að söluverð karfa Vinnslustöðvarinnar er að sjálfsögðu með í landsmeðaltalinu og tosar það að sjálfsögðu umtalsvert upp á við!

Karfamarkaður Þjóðverja gefur eftir

Hvað skýrir þessa staðreynd,m Gunnar Hreiðar Þorvaldsson?

„Því get ég hreinlega ekki svarað. Það þyrfti býsna umfangsmiklar markaðsrannsóknir til að fá óyggjandi svör við spurningunni.

Ég fór ekki lengra en að varpa ljósi á hver staðan væri og studdist við opinberar upplýsingar og samtöl við fólk í markaðsmálum sjávarútvegsins hér heima og ytra. Niðurstaðan er áhugaverð.

Allir viðmælendur mínir sögðu að karfamarkaðurinn í Þýskalandi hefði gefið eftir hægt og bítandi á undanförnum árum og áratugum en að karfinn hefði á sama tíma sótt nokkuð í sig veðrið í Frakklandi.

Heill, ferskur fiskur er verðmætasta karfaafurðin á þessum mörkuðum. Samkeppnin er hörð, lágt verð í Asíu núna setur þrýsing á fiskverð í Evrópu. MSC-vottun er mikilvæg í markaðssetningu og sölu í Þýskalandi.“

Gunnar Heiðar er sannfærður um að hægt sé að snúa þróuninni við. Hann kallar eftir skipulagðri og hugmyndaríkri markaðssetningu karfa á þessum mikilvægu mörkuðum á meginlandi Evrópu.

„Ég er sóknarmaður í fótbolta og lít á karfasöluna sem slíkur! Mér sýnist margt benda til þess að Íslendingar nýti sér ekki sóknarfæri sem sannarlega eru fyrir hendi með karfann. Engin skipulögð markaðssetning er í gangi vegna karfasölu sérstaklega og engin slík í undirbúningi svo ég viti. Þarna eru möguleikar til að gera betur og ná meiri árangri. Ekki þarf endilega að kostu miklu til en fyrst og fremst að breyta hugarfari.“

Karfasala og bakhjarl íþrótta

Gunnar Heiðar Þorvaldsson skilaði skýrslunni sinni um greiningu og þróun karfamarkaðar í Þýskalandi fyrir þjóðhátíð Vestmannaeyja. Þá tók við hjá honum sem spilandi aðstoðarþjálfara Eyjamanna í fótbolta í efstu deild að búa sig og liðið undir bikarúrslitaleik við FH í Reykjavík.

Eyjamenn gerðu það sem fáir sparkspekingar þorðu að spá upphátt. Gunnar Heiðar skoraði eina mark leiksins, ávísun á heimferð til Eyja með bikarinn í Herjólfi og heimkomu í taumlausri gleði og flugeldaglæringum við höfnina.

Skiljanlegt að aðstoðarþjálfarinn hefði ögn ráman talanda núna í byrjun vikunnar þegar hann varð skyndilega að ræða um karfa en gleyma fótbolta um stund.

Hugurinn dvaldi samt einungis andartak við fiskinn rauða því nú blasir við nýkrýndum bikarmeisturum að berjast fyrir tilveru sinni í efstu deild Íslandsmótsins í fótbolta karla.

Vinnslustöðvarfólki þykir auðvitað notalegt að fá borgað yfir landsmeðaltali fyrir karfa í útlöndum en þegar að er gáð nýtur íþróttahreyfingin í Vestmannaeyjum beinlínis góðs af því. Vinnslustöðin styður og styrkir sitt heimafólk í íþróttum karla og kvenna, frá ungmennastarfi upp í meistaraflokka. Sterkt fyrirtæki og arðsamur rekstur jafngildir sterkum bakhjarli í samfélagsstarfsemi, ekki síst íþróttum. Þannig er nú samhengi hlutanna í hnotskurn.

Titlar í höfn í nýsköpun og fótbolta!

Gunnar Heiðar er keppnismaður og leiðtogi á fótboltavellinum. Í vor var hann í hópi fimm stúdenta í Háskólanum í Reykjavík sem settu á þremur vikum saman viðskipta- og markaðsáætlun fyrir nýtt nýsköpunarfyrirtæki. Þetta var skólaverkefni og keppti um verðlaun við 67 önnur slík fyrirtæki.

Sigurlið Volcano Seafood í Háskólanum í Reykjavík. Gunnar Heiðar Þorvaldsson lengst til hægri. Hann hafði orð fyrir hópnum þegar verkefnið var kynnt í vor. Með honum eru Dagur Arnarson, Guðný Bernódusdóttir, Hallgrímur Þórðarson og Svanhildur Eiríksdóttir. Mynd: Háskólinn í Reykjavík.

Sigurlið Volcano Seafood í Háskólanum í Reykjavík. Gunnar Heiðar Þorvaldsson lengst til hægri. Hann hafði orð fyrir hópnum þegar verkefnið var kynnt í vor. Með honum eru Dagur Arnarson, Guðný Bernódusdóttir, Hallgrímur Þórðarson og Svanhildur Eiríksdóttir. Mynd: Háskólinn í Reykjavík.

Verkefni Gunnars Heiðars og félaga, Volcano Seafood, var valið besta sjávarútvegsfyrirtækið í samkeppninni og hlaut líka Guðfinnuverðlaunin fyrir nýsköpun og frumkvöðlastarf sem er einstæður árangur! Guðfinnuverðlaunin eru kennd við Guðfinnu Bjarnadóttur, fyrrverandi rektor Háskólans í Reykjavík.

  • Verðlaunaverkefnið Volcano Seafood er keilusnakk, þurrkuð og bragðbætt keila sem notuð er sem snarl líkt og harðfiskur. Þarna er sem sagt gert ráð fyrir að breyta ódýru og vannýttu hráefni í verðmætt góðgæti.

Ekki nóg með það. Verðlaunahópurinn úr HR heldur til Kaupmannahafnar í september og tekur fyrir Íslands hönd þátt í heimsmeistarakeppni í nýsköpun og frumkvöðlastarfi!

Bikarar í hús fyrir nýsköpun og fótbolta hér heima. Heimsbikar í boði í Köben í haust.

Aðstoðarþjálfari Eyjamanna er að sjálfsögðu meira en til í að bæta líka heimsmeistaratitli í safnið sitt  í ár en ætlar fyrst að gera rósir í síðustu leikjum Íslandsmótsins í fótbolta.

Gunnar Heiðar er síður en svo saddur. Hungur í fleiri titla sverfur enn að …

 

Deila: