Hyggjast láta smíða 12 nýja tvílembinga

Deila:

Flestar útgerðir tvílembinga í Færeyjum hyggjast endurnýa flota sinn og 12 samningar eru nú í undirbúningi. Það eru útgerðirnar Faroe Origin, Kósin og útgerðin í Hvalba, sem ætla að endurnýja togbáta sína. Tvílembingar eru togbátar sem eru saman um að draga eitt troll.

Tvílembingarnir hafa haft möguleika á því að veiða makríl, en hafa flestir framselt þær heimildir til uppsjávarskipa.Hanus Hansen útgerðarmaður hjá Kósini segir að þar standi til að láta smíða fjóra nýja togbáta og krafan sé að hver bátur fái 500 tonna makrílkvóta. Það myndi þýða að kvótinn yrði 2.000 tonn og verðmæti hans væri þá 40 milljónir færeyskra króna, 764 milljónir íslenskra króna. Það sé um þriðjungur af aflaverðmæti þessara togbáta.

Tvílembingar hjá Kósini eru Stjörnan og Polarhav, Guglberg og Skoraberg og Safir og Smaragd. Pörin hjá Faroe Origin eru Stelkur og Bakur og Heykur og Falkur. Útgerðin seldi í fyrra bátana Rók og Lerk úr landi og færði heimildir þeirra á bátana sem eftir voru. Bátarnir frá Hvalba eru Hamranes og Beiðanes. Einu tvílembingarnir sem ekki eru inni í þessari áætlun eru Jaspis og Ametyst frá útgerð Mortan Johannesen í Þórshöfn, en þeir fiska fyrir vinnsluna Barðið.

„Við höfum unnið með nokkrum útgerðum og áætlunin er að láta smíða 12 báta. Það krefst þó þess að fjárhagslegur grundvöllur útgerðarinnar sé tryggður. Við erum að komast að þeim punkti verða að gera eitthvað til þess að fiskvinnslan eigi sér framtíð,“ segir Hanus Hansen útgerðarmaður.

Deila: