Senegalflúran alin í affallsvatni frá HS Orku

Deila:

Stolt Sea Farm hefur með góðum árangri alið hlýsjávarfiskinn senegalfúru á Reykjanesi. Eldisstöðin er í nágrenni orkuvers HS Orku og nýtir hún heitt affallsvatn frá orkuverinu. Það er grundvöllurinn fyrir rekstrinum auk staðsetningar landsins mitt á milli Evrópu og Ameríku. Sóknarfæri heimsótti stöðina og ræddi við framkvæmdastjórann James Hall.

„Seiðin koma mánaðarlega frá eldisstöð okkar á Spáni. Þau eru síðan ræktuð á fysta stigi eldisins, þá eru þau um 10 grömm, áður en þau eru flutt yfir á næsta svæði. Frá þessum tímapunkti er framleiðsluferillinn um eitt ár, þegar fiskurinn hefur náð 500 grömmum er hann tilbúinn til sölu. Vellferð fisksins er afar mikilvæg og er fiskurinn alinn upp við bestu mögulegu aðstæður“ segir James.

Slátra um 8 tonnum á viku

Það fer svo eftir því hvað söludeildin þarf, hvernig slátrun er hagað. „Við slátrum samtals um 8 tonnum að meðaltali á viku. Framleiðslugeta eldisstöðvarinnar 500 tonn á ári af fiski sem er að meðaltali um 500 grömm að þyngd. Við getum alið fisk upp í allt að 1 kg fyrir þá viðskiptavini sem þess óska“

James Hall framkvæmdastjóri Stolt Sea Farm segir að landfræðileg staða Íslands og heitt vatn frá Reykjanesvirkjun sé forsenda þess að eldið gangi vel.

James leiðir mig í gegnum ferilinn. Það er áhugavert að sjá hvernig fiskar eru nánast jafnstórir í eldiskerum, þetta er framkvæmt með flokkun. Fóðrun er stjórnað af tölvuforriti sem er tengt við sjálfvirkan fóðrara. Þetta þýðir að fiskurinn hefur aðgang að fóðri allan sólahringinn. Eldinu er skipt í fjögur svæði, þar sem fiskurinn er fluttur á milli svæða eftir vaxtastigi hans. Þar sem senegalflúran er botnfiskur er lýsingu haldið í lágmarki. Á síðasta svæðinu í eldinu eru sölukerin þar sem fiskurinn er undirbúinn til sölu. „Fiskeldi er áhættusöm starfsgrein og að mörgu að huga,“ segir James. „Ef rafmagnið slær út höfum við ekki nema hálftíma til að keyra upp varaaflsstöð til að halda rennslinu gangandi. Annars er allt farið,“ segir hann.

Heita vatnið mikilvægt

Eldisstöðin notar um 30 gráðu heitt affallsvatn frá Reykjanesvirkjun, sem er síðan blandað með kaldara vatni niður í hæfilegt hitastig fyrir fiskinn sem er um 20 gráður. James segir að það sé lykilatriði að hafa aðgang að þessu vatni, sem sé mjög hreint. Það sé ein af aðalástæðum þess að eldisstöðin sé staðsett á Íslandi, en Stolt Sea Farm sé einnig með eldisstöðvar í Frakklandi, Portúgal og á Spáni og heildarframleiðslan sé um 1.500 tonn á ári. Miklu máli skipti að þar sem eldisstöðin standi mun lægra en virkjunin, þurfi lítið sem ekkert dælukerfi. Þyngdaraflið sjái um allan vatnsflutning og ekkert vatn þurfi að hita. Sem þýðir að framleiðslukerfið er mjög sjálfbært og umhverfisvænt.

Önnur ástæða sé staðsetning landsins mitt á milli Evrópu og Ameríku. Einn af helstu mörkuðunum sé vestan hafs og mun styttra sé að flytja afurðirnar til Bandaríkjanna frá Íslandi en úr sunnanverðri Evrópu

Verðmætasta kolategundin

Senegalflúra þykir afbragðs góður matur og mjög eftirsóttur.

Senegalflúran er verðmætasta kolategundin og selst á hærra verði en sólkoli til dæmis og eru markaðir helst í vestur Evrópu og í Bandaríkjunum. Fiskurinn frá öllum eldisstöðvunum er seldur í gegnum söluskrifstofu á Spáni og þaðan er sölunni stýrt inn á markaðina, með það í huga að skammt sé frá eldinu á markaðina. Allur fiskur í sláturstærð er skráður í tölvukerfi söluskrifstofunnar. Sölumennirnir vita hvað er til á hverjum stað og dreifa fiskinum á markaðina með það í huga að það skili fyrirtækinu sem mestum tekjum. Alltaf er tekinn rétt stærð frá réttri eldisstöð og er kerfið því nokkuð flókið. Með þessu kerfi er hægt að segja með 6 mánaða fyrirvara hvað verði í boði á hverjum tíma. Eins geta sölumennirnir beðið um ákveðnar stærðir á ákveðnum tímum allt eftir eftirspurn hverju sinni. Þannig er ferlinu stýrt svo allir fái alltaf það sem þeir vilja.

Uppskera í samræmi við pantanir

„Á föstudegi rétt fyrir hádegi fáum pantanir frá söluskrifstofunni um það sem selja á í næstu viku. Til dæmis 3 tonn af þessari stærð, 5 tonn af annarri og svo framvegis. Á lokastiginu erum við með stærðarflokkaðan fisk með 100 gramma millibili. Við vitum með nokkurri vissu hvernig pöntunin verður og færum fisk til í kerunum í samræmi við það, flokkum og teljum. Í þessum kerum getum við haft 8 til 9 tonn tilbúin til slátrunar. Við „uppskerum“ í samræmi við pantanir og síðan er fiskurinn fluttur til pökkunar hjá Premium í Sandgerði og þaðan upp á flugvöll. Þeir hafa pakkað fyrir okkur frá upphafi og hefur það gengið mjög vel.“

Ala gullinrafa í tilraunaskyni

Stolt Sea Farm hefur fengið leyfi til tilraunaeldis á fiskinum Seriola dumerili, sem á íslensku hefur fengið nafnið gullinrafi. Það er fiskur áþekkur gulugga túnfiski og vex mjög hratt. Þessi fiskur er eftirsóttur í Europe, Asíu og Bandaríkjunum sérstaklega í sushi. James segir að þeir hafi tekið nokkuð af seiðum til tilraunaeldis og árangurinn hafi verið mjög góður, sérstaklega vegna heita vatnsins frá HS Orku. Það sé grundvöllur þess að geta alið hlýsjávarfiska, sem þurfi hátt hitastig og gæða vatn. Tekin hafi verið nokkur þúsund seiði og tilraunin lofi góðu. Nú sé HS Orka að bæta við einni túrbínu sem þýði að þá sé meira af heitu vatni í boði. Því sé verið að skoða hvernig nýta megi aðgang að meira vatni. Áhugi sé á því að auka eldið á senegalflúrunni, en einnig sé verið að skoða hvort heppilegt sé að taka nýja tegund inn eins gullinrafa. Það geti verið betra fyrir reksturinn að hafa tvær tegundir í gangi til að draga úr áhættu í rekstrinum. Lækki til dæmis verðið á annarri tegundinni en ekki hinni, sé hægt að auka framleiðsluna á þeirri sem meira gefi af sér.
Viðtal þetta birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri. Blaðinu er dreift til fyrirtækja um allt land og er að auki aðgengilegt á heimasíðu útgáfunnar, https://ritform.is/

Deila: