Mikil aukning aflaverðmæta fyrir austan

Deila:

Verðmæti landaðs fiskafla á Austfjörðum jókst um ríflega 700 milljónir króna, eða 66% í októbermánuði síðastliðnum, miðað við sama mánuð árið áður. Skýringin liggur í mikilli aukningu síldarafla í mánuðinum, en síldinni er mest landað á höfnum fyrir austan.

Aflaverðmæti varð alls um 11,1 milljarður króna á öllu landinu í október samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands. Það er aðeins 0,8% vöxtur miðað við árið áður, þrátt fyrir 40% aukningu fiskaflans og þýðir það einfaldlega lægra fiskverð.

Mest var aflaverðmætið á höfuðborgarsvæðinu eins og alla jafna, 2,3 milljarðar króna, sem er 1,3% aukning. Skýring á miklu aflaverðmæti á höfuðborgarsvæðinu liggur meðal annars í því að þar tekur HB Grandi inn mikið af afla sínum og þar er algengt að frystitogarar landi verðmiklum afla sínum.

Skammt á eftir höfuðborgarsvæðinu koma Suðurnesin. Þar var verðmæti landaðs afla 1,9 milljarðar króna, sem reyndar er samdráttur um 10%. Á Suðurnesjum er miklu landað af bolfiski og verðlækkun á honum dregur heildarverðmætið niður.

Fast á hæla þeirra kemur Norðurland eystra með tæplega 1,9 milljarð króna. Þar er samdráttur 7,3% og er uppistaða aflans bolfiskur. Austurlandi er í fjórða sætinu með tæplega 1,9 milljarða, sem er eins og áður sagði vöxtur um 66%. Skýringin liggur í auknum afla af síld og kolmunna.

Verðmæti landaðs afla á Suðurlandi var 944 milljónir króna, sem er samdráttur um 10,6%. Þar á eftir koma Vestfirðir með 656 milljónir, síðan Vesturland með 590 milljónir, en verðmætið í þessum landshlutum stendur nánast í stað milli októbermánaða 2017 og 2016. Lestina rekur Norðurland vestra með 469 milljónir króna. Það er samdráttur um 34,6% og má rekja hann til færri landana og landana sem lenda sitthvoru megin mánaðamóta.

Deila: