Veiðinni best lýst sem kroppi

Deila:

Venus NS kom til Vopnafjarðar á sunnudag með um 2.100 tonn af kolmunna. Víkingur AK átti eftir rúmlega klukkutíma siglingu til hafnar á Vopnafirði með um svipað magn í tönkum er rætt var við Albert Sveinsson skipstjóra um kolmunnaveiðarnar um miðjan dag í gær á heimasíðu Brims.

,,Veiðinni er best lýst sem kroppi. Kolmunninn er á fleygiferð í suður en þéttleikinn er ekki mikill. Fyrir vikið er enginn kraftur í veiðinni. Skipin eru að toga í sólarhring í senn. Það gerist lítið yfir daginn en veiðin er skárri á kvöldin og á nóttunni. Við vorum yfirleitt að fá um 200 tonn í holi og þegar best lét komumst við upp í rúm 300 tonn,“ segir Albert en hann kveður að leiðinlegt veður á miðunum austan Færeyja hafi ekki auðveldað veiðarnar.

,,Einu sinni þurftum við að fara til hafnar og leita vars. Það var þegar lægðin, sem olli fárviðrinu heima, gekk yfir miðin. Veðurspáin var svo slæm að það var ekki um annað að ræða en að koma sér í var. Við fórum inn til Kollafjarðar og vorum þar í sólarhring á meðan versta veðrið gekk yfir. Veiðinni var svo haldið áfram þar til híft var klukkan sex í gærmorgun og stefnan sett á Vopnafjörð,“ segir Albert Sveinsson.

Að löndun lokinni verður Víkingi siglt suður til Reykjavíkur. Þar mun skipið bíða fram yfir áramót eftir því að veiðar hefjist að nýju.

 

 

Deila: