ICES leggur til veiðibann á úthafskarfa

Deila:

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur veitt ráð um veiðar ársins 2020 og 2021 fyrir efri og neðri stofna úthafskarfa. Niðurstaðan er að engar veiðar skuli stundaðar úr þessum stofnum næstu tvö ár.

Úthafskarfi – neðri stofn

ICES ráðleggur í samræmi við nýtingarstefnu sem mun leiða til hámarks afraksturs til lengri tíma litið (MSY) að veiðar skuli ekki stundaðar árin 2020 og 2021

Hrygningarstofninn hefur minnkað verulega frá því að veiðar úr neðri stofni úthafskarfa hófust í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Frá sama tíma hækkaði veiðidánartala mikið og hefur verið mjög há allt frá aldarmótum.

Leiðangrar til að meta stærð stofnsins hafa verið farnir annað hvert ár frá árinu 1999, síðast árið 2018.  Niðurstöður þessara leiðangra sýna að stofninn hefur minnkað mikið allt tímabilið. Ráðgjöfin sem nú er kynnt er byggð á líkani sem nýtir m.a. gögn um lengdardreifingu og aldurssamsetningu í veiðum, auk þess að nota gögn úr ofangreindum leiðangri.  Niðurstöðurnar eru að stofninn hefur minnkað jafnt og þétt allt frá því um 1995 og er nú langt undir varúðarmörkum (Blim).  Jafnframt sýna framreikningar að þótt engar veiðar verði stundaðar næstu tvö árin muni stofninn áfram verða undir varúðarmörkum í lok þess tímabils.

Ekki hefur verið samkomulag milli veiðiþjóða um skiptingu afla um langt skeið.  Jafnframt hefur verið ágreiningur um stofngerð og telja Rússar að í Grænlandshafi sé einungis einn stofn og að ástandið sé mun skárra en ICES hefur talið. Hafa þeir því úthlutað veiðiheimildum til rússneskra skipa í samræmi við það og þær heimildir verið langt umfram ráðlagðan heildarafla.

Upplýsingar um ráðgjöfina og forsendur hennar má nálgast í þessum hlekk og frekari upplýsingar má finna í tækniskýrslu sérfræðinganefndar ICES.

Úthafskarfi – efri stofn

ICES hefur á undanförnum árum lagt til að engar veiðar yrðu stundaðar úr efri stofni úthafskarfa (sá sem veiðist á minna en 400 metra dýpi) þar sem ástand þess stofns versnaði mikið undir lok síðustu aldar og hefur stofninn mælst mjög lítill í leiðöngrum undanfarna 2 áratugi. ICES ráðleggur nú, í samræmi við varúðarsjónarmið, að ekki skuli stunda beinar veiðar úr efri stofni úthafskarfa árin 2020 og 2021.

Upplýsingar um ráðgjöfina og forsendur hennar má nálgast í þessum hlekk og frekari upplýsingar má finna í tækniskýrslu sérfræðinganefndar ICES.

Ráðgjöf ICES má í heild sinni finna á vef ráðsins, ices.dk

 

Deila: