Á íslenskur sjávarútvegur að leggja netin í Noregi?

Deila:

Áhugaverð tækifæri bíða íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á norskum fjármagnsmarkaði að sögn Alexanders Aukner. Alexander er verðbréfasérfræðingur hjá norska bankanum DNB og var hann meðal ræðumanna á ráðstefnu sem Logos efndi til á þriðjudag. Rætt er við hann í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.

„Norsk sjávarútvegsfyrirtæki og fjármálastofnanir eru þegar farin að sýna Íslandi áhuga og ljóst að hvergi er að finna betri stað en Noreg fyrir sjávarútvegsfyrirtæki til að fá vandað verðmat. Þannig veit ég ekki betur en að hvergi annars staðar vakti hlutfallslega jafn margir markaðsgreinendur rekstur meðalstórra fyrirtækja.“

Alexander Aukner

Norski sjávarútvegurinn er gríðarstór og hefur umfangsmikil fjármálaþjónusta orðið til í kringum þarfir greinarinnar. Grunar Alexander að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki geti átt von á góðum móttökum ef þau leita austur um haf. „Markaðurinn er stöðugt í leit að vaxtartækifærum en undanfarið hefur hægt á þróuninni í bæði Noregi og Síle, og t.d. norsku fiskeldisfyrirtækin farið að leita leiða til að stækka með með aðkomu að fiskeldi á Íslandi. Er líka ljóst að til þess að eflast og dafna mun íslenskur sjávarútvegur hafa þörf fyrir aukið fjármagn, sem hentugt getur verið að sækja til Noregs.“

Sérþekking minnkar áhættu

Telur Alexander að í ljósi þeirrar sérhæfingar sem norski fjármagnsmarkaðurinn býr yfir á sviði sjávarútvegs geti verið ákaflega hentugt fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki að sækja sér aukið fjármagn þangað. „Sama hvaða leið er farin þá verður fjármögnun alltaf dýrari eftir því sem óvissan er meiri. Norskur fjármagnsmarkaður býr yfir þeirri sérþekkingu sem þarf til að skilja vel og leggja rétt mat á rekstur fyrirtækja sem starfa í sjávarútvegi, sem þýðir að reikna mætti með lægra áhættuálagi.“

Alexander segir glettinn að vitaskuld sé best að leita fyrst af öllu til DNB ef íslensk sjávarútvegsfyrirtæki vilja þreifa fyrir sér í Noregi, enda búi bankinn að sérstakri deild sem helguð er þjónustu við sjávarútveginn. „En það er enginn skortur á fjármögnunarleiðum, hvort sem best er að leita til sérhæfðra fjárfestingarsjóða, skrá fyrirtæki á markað eða jafnvel taka einfaldlega lán hjá banka.“

En eru engar neikvæðar hliðar við það að t.d. skrá íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki á norskan hlutabréfamarkað? Alexander segir gallana litla sem enga. „Noregur leggur sérstakan skatt á útfluttar sjávarafurðir og notar þær tekjur m.a. til að fjármagna markaðsstarf fyrir greinina. En sá skattur er eingöngu lagður á fisk sem landað er í Noregi og myndi því ekki snerta íslensk fyrirtæki þó þau séu skráð í Noregi,“ útskýrir Alexander og bætir við að fjárfestar taki erlendum sjávarútvegsfyrirtækjum iðulega opnum örmum. „Við höfum mörg dæmi um vel heppnaðar skráningar erlendra sjávarútvegsfyrirtækja í kauphöllinni í Ósló, s.s. Bakkafrost frá Færeyjum sem fór á markað í Noregi árið 2010. Í frumútboðinu var eftirspurnin eftir hlutabréfum sjö sinnum meiri en framboðið, og þegar Bakkafrost seldi skuldabréf á norska markaðinum árið 2013 gerðist það sama.“

Reksturinn þarf ekki að breytast

Hamrar Alexander sérstaklega á því að rekstur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja þurfi ekki að breytast þó þau færi sér norska fjármagnsmarkaðinn í nyt. „Mörg stærstu sjávarútvegsfyrirtækin á norska hlutabréfamarkaðinum eru t.d. enn í eigu og undir stjórn fjölskyldnanna sem stofnuðu fyrirtækin upphaflega. Það er því vel hægt að skrá sjávarútvegsfyrirtæki á markað, fá gott verðmat fyrir hlutina og samt halda meirihlutaeign og stjórn á rekstrinum.“

Þurfa hreyfingar á norsku krónunni ekki heldur að vera vandamál. „Hægt er að haga lántökum í erlendri mynt þannig að áhrifum af gengisbreytingum sé haldið í lágmarki og eru fyrirtæki ekki skyldug til að gera upp í norskum krónum ellegar íslenskum. Bakkafrost í Færeyjum gerir t.d. upp í norskum krónum frekar en færeyskum eða dönskum krónum, en norska sjávarútvegsfyrirtækið Marine Harvest er með sitt bókhald í evrum og verðlagt í norskum krónum í kauphöllinni.“

Deila: