Prótein úr sölvum?

Deila:

Málfríður Bjarnadóttir hjá Matís ver meistararitgerð sína á morgun, föstudaginn 2. júní kl. 13 en í verkefni sínu rannsakaði Málfríður hvort hægt væri að ná í prótein úr sölvum sem gæti til dæmis hentað grænmetisætum. Vörnin er haldin í húsakynnum Matís við Vínlandsleið í Reykjavík.

Ágrip

Þörfin fyrir öruggt framboð matvæla fer stöðug vaxandi samhliða fólksfjölgun. Í nútímasamfélagi er jafnframt lögð sífelld meiri áhersla á heilnæmt mataræði, verndun umhverfis, nýtingu náttúrulegra hráefna og sjálfbærni. Þannig nýtur til dæmis nýtur mataræði sem útilokar dýraafurðir stöðugt meiri vinsælla. Vegna þessa er mikilvægt að finna nýjar uppsprettur matvæla einkum próteingjafa sem inniheldur þær lífsnauðsynlegu amínósýrur sem mannslíkaminn þarf. Söl (Palmaria palmata) tilheyra flokki rauðþörunga sem innihalda hátt hlutfall próteina af góðum gæðum. Útdráttur próteina úr sölvum takmarkast hins vegar af sterkum frumuvegg sem samanstendur aðallega af β-(1→4)/β-(1→3)-D-xylönum. Til þess að yfirstíga þessa hindrun er nauðsynlegt að brjóta þennan frumuvegg niður. Mismunandi leiðir til þess hafa verið skoðaðar ásamt mismunandi aðferðum til að meta próteininnihald. Markmið þessa verkefnis var að skoða áhrif mismunandi ensíma á próteinheimtur úr P. palmata. Ensím hvataður útdráttur bæði með próteasa og xylanasa var skoðaður. Vatnsrof með xylanasa skilaði bestum próteinheimtum og sýndi að próteinútdráttur úr P. palmata inniheldur allar þær lífsnauðsynlegu amínósýrur sem mannslíkaminn hefur þörf fyrir og væri þess vegna hagkvæmur sem próteingjafi í fæðu. Nýr köfnunarefnisstuðull var reiknaður fyrir þau sýni sem greind voru með tilliti til amínósýrusamsetningar og var stuðullinn mjög breytilegur milli sýna. Stuðullinn var marktækt lægri en 6.25 sem er sá stuðull sem venjulega er notaður. Þessar niðurstöður benda til þess að sé köfnunarefnisstuðull 6.25 notaður fyrir þang eins og P. palmata getur það valdið ofmati á magni próteina. Þetta gerir það að verkum að erfitt er að bera sama niðurstöður á milli rannsókna.  Vatnsrof með próteasa með eða án xylanasa skilaði hærra hlutfalli peptíða, aminósýra og lítilla próteina í vökva eftir síun og var því dreifing próteina jafnari á milli sýna. Vatnsrof með próteasa er þess vegna ekki góð til þess að einangra prótein með þeirri aðferð sem notuð var í þessari rannsókn. Hins vegar sýndi vökvaútdráttur þeirra sýna góða in vitro andoxunarvirkni og ACE hamLandi virkni. Það bendir til þess að að notkun próteasa á P. palmata er góð leið til þess að framleiða og draga út lífvirk efni.

  • Leiðbeinandi: Rósa Jónsdóttir, Matís
  • Umsjónarkennari: Björn Viðar Aðalbjörnsson, Háskóli Íslands, Matís
  • Meðleiðbeinandi: Hörður Kristinsson, Matís
  • Prófdómari: Hákon Hrafn Sigurðsson, Háskóli Íslands

 

Deila: