Norðmenn fá meira fyrir fiskinn

Deila:

Norsk fiskiskip skiluðu í fyrra afla á land að verðmæti 245 milljarðar króna. Það er aukning um 31 milljarð frá árinu áður og verður hún þrátt fyrir samdrátt í heildarafla. Skýringin er bæði hækkun á fiskverði og lækkun á gengi norsku krónunnar.
Þrátt fyrir met í aflaverðmæti á síðasta ári, dróst landaður afli saman og mest í uppsjávartegundum eða  um 22%. Samdrátturinn var mestur í loðnu, sandsíli, kolmunna og makríl. Síldarafli jókst lítillega, en hann hefur annars verið á niðurleið eftir metaflaárið 2009.

Þrátt fyrir að landanir hafi dregist saman hefur aflaverðmæti uppsjávarfisks aukist frá árinu 2015. Það skýrist af verðhækkunum, sérstaklega í makríl og síld.

Verð á þorski var í hámarki í fyrra eftir hið mikla verðfall sem varð 2009. Verð á þorski hækkaði að meðaltali frá árinu 2015 um 12%. Aflaverðmæti þorsks á síðasta ári varð nálægt 6,7 milljörðum króna. Þorskkvótinn er enn hár, þrátt fyrir smávægilega lækkun milli ára.

Landanir á krabba, kóngakrabba og snjókrabba, hafa skilað verulegri aukningu aflaverðmæta á síðustu árum. Bæði hefur aflinn aukist og verð hækkað. Krabbaafli hefur aukist um 30% frá árinu 2015 og verðið hefur hækkað um 6%. Af kóngakrabba hefur aflinn aukist um 21% og aflaverðmætið hækkað um 46%. Rækjuafli hefur á hinn bóginn minnkað og verðið lækkað.

Deila: