Uppsagnir hjá Hafró

Deila:

Tíu manns hefur verið sagt upp störfum hjá Hafrannsóknastofnun. Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir að til viðbótar hafi fjórir sjálfir sagt upp. Skipulagi stofnunarinnar verður breytt og fagsviðum fækkað úr fimm í fjögur og stoðsviðum úr fjórum í tvö.

„Ákveðið hefur verið að breyta skipulagi Hafrannsóknastofnunar. Það er gert til að gera reksturinn skilvirkari og hagkvæmari. Fagsviðum er fækkar úr fimm í fjögur og stoðsviðum úr fjórum í tvö.

Í tengslum við flutning á starfsemi stofnunarinnar úr Reykjavík á einn stað í Hafnarfirði munu verða breytingar í rekstri stoðþjónustu stofnunarinnar, störfum þar fækkað og ekki verður endurráðið í stöður sem losna á næstu mánuðum.

Kjarnastarfsemi Hafrannsóknastofnunar verður óbreytt og verður öllum helstu rannsóknaverkefnum áfram sinnt,“ segir í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar.

Meðal þeirra sem nú hætta störfum á stofnuninni er fólk með áratuga starfsreynslu. Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir í samtali á ruv.is að sumir þeirra tíu sem sagt var upp hafi verið í hlutastarfi. Þá hafi fjórir kosið að segja upp sjálfir.

„Við vorum að fækka í yfirstjórn og fækka sviðum þannig að við buðum sviðsstjórum að verða sérfræðingar en þeir kusu að fara,“ segir Sigurður.

„Auðvitað er fólki brugðið. Það er aldrei gaman að þurfa að segja upp fólki,“ segir Sigurður.

Hafrannsóknastofnun sé gert að hagræða, til standi að flytja stofnunina í nýtt húsnæði í Hafnarfirði og svo sé verið að taka upp ýmis konar kerfi sem þýði færri störf. Fjárveitingar hrökkvi ekki til svo unnt sé að halda öllum í starfi. Þeir sem hætti hafi sinnt stoðþjónustu.

Umhverfissvið lagt niður

Meðal þeirra sviða sem verða lögð niður eru umhverfissvið en það hefur haft með höndum vöktun á ástandi sjávar og kolefnisbúskap sjávar sem tengist m.a. súrnun sjávar. Aðspurður segir Sigurður að ekki standi til hætta vöktun á ástandi sjávar. Tveir mánuður eru síðan umhverfisráðherra og forstjóri Hafrannsóknastofnunar undirrituðu samkomulag um aukna vöktun á súrnun sjávar. Ráðuneytið veitir 155 milljónum króna í verkefnið.

Sigurður segir að með fækkun sviða hafi verið ákveðið að flytja verkefni umhverfissviðs á þrjú önnur svið: botnsjávar-, ferskvatns- og uppsjávarsvið. Þegar hafi verið pöntuð mælitæki í verkefnið og gert sé ráð fyrir leiðangri í febrúar til að mæla súrnun.

Skipurit stofnunarinnar er þannig:

 

Deila: